Samningur vegna yfirtöku ríkisins á lífeyrisskuldbindingum hjúkrunarheimilis Höfða á Akranesi var undirritaður föstudaginn 13. janúar af nýjum fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannessyni, Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra Akraness, Kjartani Kjartanssyni framkvæmdastjóra Höfða, Gerði Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra Brúar lífeyrissjóðs og Hauki Hafsteinssyni fyrir hönd Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga. Samningurinn byggir á samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 28. október 2016 um tilhögun uppgjörs lífeyrisskuldbindinga í B-deildum Brúar lífeyrissjóðs, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga.
Í ársbyrjun 2016 var skipaður starfshópur fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að fara yfir lífeyrisskuldbindingar vegna samrekstrarverkefna ríkis og sveitarfélaga. Fulltrúar sveitarfélaganna lögðu áherslu á að lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila yrðu forgangsverkefni nefndarinnar og í rammasamningi um þjónustu og starfsemi hjúkrunarheimila sem gerður var síðastliðið haust var sett inn ákvæði þar að lútandi. Yfirtaka ríkisins á lífeyrisskuldbindingum hjúkrunarheimilis Höfða er fyrsti liður af þremur í þessu ferli, en eftir er að undirrita samning vegna yfirtöku ríkisins á skuldbindingum hjúkrunarheimila Hvamms á Húsavík og Hafnarbúða í Vestmannaeyjum. Samningurinn hefur mikla þýðingu fyrir tryggingafræðilega stöðu réttindasafna innan B deildar Brúar lífeyrissjóðs og bakábyrgðaraðila þeirra, þ.e. Akraneskaupstaðar, Húsavíkurkaupstaðar og Vestmannaeyjarkaupstaðar. Útgjöld vegna samningsins voru samþykkt á Alþingi í fjáraukalögum vegna ársins 2016.