28.08.2017
Almennt
Þann 1. júlí síðast liðinn tóku gildi lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Aðgerðin er hugsuð fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu húseign eða vilja spara fyrir kaupum á fyrstu íbúð.
Með lögunum er veittur réttur til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst sem innborgun eða til að greiða niður höfuðstól og afborganir lána sem tekin eru vegna kaupanna.
Helstu skilyrði um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð eru:
- Rétthafi má ekki hafa átt meira en 30% í íbúð áður.
- Rétthafi þarf að kaupa íbúð annað hvort einn eða í félagi við annan einstakling.
- Skilyrði er að hann eigi a.m.k. 30% hlut í húsnæðinu og að lán sé tryggt með veði í húseigninni.
- Heimildin takmarkast við 6% af launum (4% frá einstaklingi og 2% frá launagreiðanda).
- Hámarksfjárhæð er 500.000 kr. á ári fyrir hvern einstakling eða 5 milljónir á 10 ára tímabili. Hjón geta því nýtt að hámarki 10 milljónir samtals.
- Heimildin gildir í 10 ár samfellt og velur umsækjandi upphafstíma. Fólki er frjálst að skipta um húsnæði en skilyrði er að kaup á nýrri íbúð fari fram innan 12 mánaða frá sölu íbúðar sem veitti réttinn í upphafi.
- Fólk sem þegar nýtir séreignarsparnað inn á höfuðstól láns samkvæmt fyrri heimild geta sótt um þetta úrræði ef um er að ræða fyrstu íbúð. Tímabilið sem hefur verið nýtt kemur þá til frádráttar 10 ára tímabili.
- Sótt er um rafrænt á vef ríkisskattstjóra. Umsókn skal berast í síðasta lagi 12 mánuðum eftir að kaupsamningur var undirritaður.
- Til þess að hægt sé að nýta sér úrræðið, þurfa lántakar að vera með samning um séreignarsparnað. Þeir sem ekki hafa hann þurfa að gera samning við einhvern þeirra vörsluaðila sem bjóða upp á séreignarsparnað.