Fara í efni

Hækkun mótframlags launagreiðenda í A deild Brúar lífeyrissjóðs

 

Frá og með 1. janúar 2017 hækkar mótframlag launagreiðenda vegna lífeyrisiðgjalda launþega sem greiða í A deild Brúar lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga úr 12% í 16,8%. Lífeyrisiðgjöld nema þá samtals 20,8% af heildarlaunum starfsmanna.

Niðurstaða tryggingafræðilegrar athugunar í árslok 2015 sýndi að í A deild Brúar lífeyrissjóðs voru skuldbindingar umfram eignir um 9,8%. Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (39. gr l. 127/1997) ber stjórn að grípa til aðgerða ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Bráðabirgðaákvæði VI með lögum nr. 129/1997 um tímabundna undanþágu frá tryggingafræðilegu jafnvægi rann út 31. desember 2015. Samkvæmt gr. 8.1 í samþykktum sjóðsins skal ákvörðun stjórnar um hækkun framlags launagreiðanda liggja fyrir eigi síðar en 1. október fyrir komandi almanaksár. Stjórn sjóðsins samþykkti á fundi sínum 30. september að hækka mótframlag launagreiðenda sem greiða í A deild sjóðsins úr 12% í 16,8%. Samþykktin er bundin þeim fyrirvara að forsendur að baki tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins breytist ekki fram að áramótum, svo sem vegna áhrifa samkomulags Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands, annars vegar og fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga, hins vegar, um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna sem undirritað var 19. september sl.