Frá og með 1. apríl 2021 var tekið upp breytt verklag við úrskurði örorkulífeyris hjá sjóðnum, en frá þeim tíma er tekið fullt tillit til greiðslna sjóðfélaga frá Tryggingastofnun ríkisins við frumúrskurði örorku. Áður voru greiðslur sjóðfélaga frá Tryggingastofnun skertar við frumúrskurð.
Til framtíðar verður tekið tillit til hækkana sem verða á greiðslum frá Tryggingastofnun, þannig að við tekjueftirlit örorkulífeyrisþega hafa þær hækkanir ekki áhrif á tekjuviðmiðin. Miðast það verklag við úrskurðarár frumúrskurðar hvers og eins örorkulífeyrisþega.
Breyting þessi hefur ekki áhrif á þá örorkulífeyrisþega sem voru úrskurðaðir á örorkulífeyri fyrir 1. apríl 2021.
Umrætt verklag byggir á XI. bráðabirgðaákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Bráðabirgðaákvæðið kom inn í lögin í kjölfar viðræðna ríkisstjórnar og Landssamtaka lífeyrissjóða á árinu 2010 um víxlverkun örorkulífeyris almannatrygginga og örorkulífeyris frá lífeyrissjóðunum. Sett var markmið um að fram færi endurskoðun fyrir árslok 2013 á samspili lífeyrissjóða og almannatrygginga hvað varðar örorkulífeyri, en þeirri endurskoðun er enn ólokið.
Landssamtök lífeyrissjóða fengu nýlega mat utanaðkomandi lögmanns á umræddu bráðabirgðaákvæði en að hans mati er ákvæðið ekki skýrt, lögskýringargögn ekki afdráttarlaus og taldi hann að verklagið fram til 1. apríl 2021 hafi ekki verið rétt. Verklagið er því nú leiðrétt með hliðsjón af þessu mati.
Frekari upplýsingar um málið veitir Þóra Jónsdóttir, sviðstjóri réttinda- og lögfræðisviðs Brúar lífeyrissjóðs.