Fara í efni

Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar

Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar var stofnaður árið 1959 og bar þá nafnið Eftirlaunasjóður Keflavíkurkaupstaðar. Þann 1. júlí 1998 var sjóðnum lokað fyrir nýjum sjóðfélögum. Einungis þeim, sem greiddu til sjóðsins til júníloka 1998, var heimilt að greiða áfram til sjóðsins, enda hafi iðgjald verið greitt til sjóðsins óslitið frá þeim tíma. Sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld vegna starfa hjá Reykjanesbæ, stofnunum bæjarins, sjálfseignarstofnunum eða félögum skrásettum í Reykjanesbæ sem bæjarfélagið á aðild að voru iðgjaldaskyldir til sjóðsins. Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga hefur frá 1. maí 2017 haft umsjón með og annast rekstur sjóðsins.

Vorið 2017 gekk sjóðurinn inn í B-deild Brúar lífeyrissjóðs, en þar er haldið utan um réttindasöfn fimm annarra sveitarfélagasjóða sem sameinuðust árið 2013. Vísað er til réttindasafns sjóðsins í daglegu tali.

Tilgangurinn með að sameina lokaða sveitarfélagasjóði undir B-deild er að einfalda utanumhald og lækka kostnað. 

Áhersla er lögð á að réttindi sjóðfélaga haldist óbreytt sem og réttindaávinnsla til framtíðar. Bakábyrgð sveitarfélagsins helst óbreytt og hún sérgreind fyrir sjóðinn. 

Samþykktir Brúar lífeyrissjóðs

Réttindaákvæði úr samþykktum Eftirlaunasjóðs Reykjanesbæjar

1. gr. Iðgjöld.

1.1

Sjóðfélagar greiða 4% af föstum launum sínum í iðgjöld til sjóðsins.

1.2

Launagreiðendur greiða í iðgjöld til sjóðsins 8% af þeim föstum launum, er sjóðfélagi tekur hjá þeim. Skulu þau greidd til sjóðsins samtímis iðgjöldum sjóðfélaga.

1.3

Nú hækka föst laun sjóðfélaga, sem náð hefur 60 ára aldri, umfram það, sem um hefur samist milli launagreiðenda sjóðsins og hlutaðeigandi stéttarfélaga á undanfarandi 12 mánuðum, og getur sjóðstjórn þá ákveðið, að ekki skuli greidd iðgjöld af slíkri umframhækkun launa og ekki verði tekið tillit til hennar við úrskurðun lífeyris. Slík ákvörðun sjóðstjórnar skal tekin eigi síðar en þremur mánuðum eftir að sjóðnum hefur borist tilkynning um launahækkunina og aldrei síðar en þremur mánuðum eftir lok þess almanaksárs, er hún kom til framkvæmda.

1.4

Þegar sjóðfélagi hefur öðlast rétt til 87% ellilífeyris, falla iðgjaldagreiðslur hans niður, svo og iðgjaldagreiðslur launagreiðanda hans vegna.

1.5

Enginn greiðir iðgjöld til sjóðsins fyrr en eftir lok þess mánaðar, er hann nær 16 ára aldri.

1.6

Sjóðfélagar bera eigi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins nema með iðgjöldum sínum.

2. gr. Ábyrgð Reykjanesbæjar á lífeyrisgreiðslum og áhættudreifing.

2.1

Reykjanesbær ber ábyrgð á greiðslum lífeyris samkvæmt samþykktum þessum.

3. gr. Ellilífeyrir.

3.1

Hver sjóðfélagi, sem á að baki a.m.k. 5 réttindaár, sbr. ákvæði 7. gr. og er orðinn fullra 65 ára, á rétt á ellilífeyri úr sjóðnum, enda láti hann þá af starfi sínu. Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af launum þeim, er á hverjum tíma fylgja starfi því, sem sjóðfélagi gegndi síðast, sbr. þó ákvæði 3.3, 3.4 og 3.6. Hundraðshluti þessi er 2% af launum fyrir hvert réttindaár, en þó aldrei hærri en 87%. Eftir að taka lífeyris hefst skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.

3.2

Þegar sjóðfélagi hefur náð 60 ára aldri, samanlagður lífaldur hans og réttindatími er orðinn 95 ár og hann lætur af störfum, á hann rétt á ellilífeyri. Lífeyrisréttur sjóðfélaga, sem notfærir sér þessa reglu, skal vera 2% af launum fyrir hvert réttindaár.

3.3

Hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í a.m.k. 10 réttindaár fyrr á sjóðfélagatíma sínum, skal miða lífeyri við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því a.m.k. 10 ár. Ella skal miða við það hærra launað starf, sem hann að viðbættum enn hærra launuðum störfum hefur gegnt í a.m.k. 10 ár.

3.4

Nú hefur sjóðfélagi öðlast rétt til að taka ellilífeyri, en frestar töku hans og tekur jafnframt við öðru starfi hjá aðila, sem tryggir starfsfólk sitt í sjóðnum, lægra launuðu en því, sem hann gegndi áður, og skal þá miða lífeyri við laun í því starfi, sem hærra var launað. Sama regla gildir, þegar sjóðfélagi verður af heilsufarsástæðum að láta af starfi sínu, en tekur við öðru léttara og lægra launuðu starfi, er veitir aðgang að sjóðnum. Stjórn sjóðsins getur krafist vottorðs trúnaðarlæknis sjóðsins til sönnunar því, að sjóðfélaginn verði að láta af starfi sínu vegna heilsubrests.

3.5

Sjóðfélagar sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi geta þrátt fyrir ákvæði 3.1 valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytast til samræmis við þær breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf er þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar fyrir hærra launað starf samkv. ákvæðum 3.3 og 3.4 eða hvort þær skulu breytast samkvæmt ákvæði 3.1. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal tekin eigi síðar en 3 mánuðum eftir að greiðsla lífeyris hefst. Sé starf sem verið hefur til viðmiðunar fyrir breytingar á lífeyri samkvæmt ákvæði þessu lagt niður skulu breytingar á lífeyri þeirra sem haft hafa viðmiðun við það, uppfrá því fara eftir ákvæði 3.1.

3.6

Hefji sjóðfélagi ekki töku lífeyris í beinu framhaldi af því starfi, sem veitti honum aðild að sjóðnum, skal upphæð ellilífeyris ákveðin þannig að miða skal við þau laun, sem iðgjöld voru síðast greidd af til sjóðsins með breytingum í samræmi við meðalbreytingar, sem urðu á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu frá því og þar til taka lífeyris hefst. Hafi sjóðfélagi látið af störfum fyrir 31.desember 2006, skal þó miða við þau laun, sem því starfi fylgdu 31.desember 2006, en eftir það samkvæmt framangreindri reglu.

3.7

Um ellilífeyrisrétt þeirra, sem ná ekki 5 ára réttindatíma í sjóðnum, fer eftir ákvæðum 9. gr.

4. gr. Örorkulífeyrir.

4.1

Hver sjóðfélagi, sem á að baki a.m.k. 5 réttindaár, hefur greitt til sjóðsins undanfarin þrjú almanaksár og a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum, á rétt á örorkulífeyri, ef hann verður fyrir orkutapi, sem trúnaðarlæknir sjóðsins metur 40% eða meira. Örorkumat þetta skal fyrstu 5 árin eftir orkutapið aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna starfi því, er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Þrátt fyrir örorku á enginn rétt á örorkulífeyri, meðan hann heldur fullum launum fyrir starf það, er hann gegndi, eða fær jafnhá laun fyrir annað starf, og aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir samkvæmt ákvæði 6.3 vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.

4.2

Þegar skilyrði ákvæðis 4.1 um réttinda- og iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt, miðast hámark örorkulífeyris við áunninn lífeyrisrétt samkvæmt 3. gr. að viðbættum lífeyri, er svarar til þess réttindatíma, sem sjóðfélagi hefði áunnið sér fram til 65 ára aldurs miðað við árlegan meðalréttindatíma hans næstu þrjú almanaksárin fyrir orkutapið. Telji sjóðstjórn þetta þriggja ára meðaltal vera sjóðfélaganum óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla, er henni heimilt að leggja til grundvallar meðalréttindatíma fleiri ár aftur í tímann og sleppa úr meðaltalinu því almanaksári, sem lakast er. Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði, skal hann því aðeins njóta framreikningsréttinda úr þessum sjóði hafi hann síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. Ef rekja má orkutapið til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna, skal sjóðfélagi ekki njóta framreikningsréttinda.

4.3

Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið, sbr. þó ákvæði 4.1.

4.4

Skylt er öryrkja, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris, að láta sjóðnum í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur, sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris.

4.5

Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja, sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn, ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því, sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn á þeim tíma, er örorkan óx, ekki verið í starfi, er veitti honum lífeyrisrétt í öðrum lífeyrissjóði.

4.6

Ef metið hlutfall orkutaps sjóðfélaga breytist við endurmat þá breytist örorkulífeyrir samsvarandi og fellur niður ef orkutapið fer undir 40%. Sjóðnum er heimilt að lækka eða fella niður örorkulífeyri ef tekjur aukast þannig að skilyrðum ákvæðis 4.1 er ekki lengur fullnægt. Örorkulífeyrir fellur niður við 65 ára aldur, og hefst þá taka ellilífeyris. Ellilífeyrir skal þá ákveðinn þannig, að auk áunninna réttinda skal reikna að þeim hluta, er hundraðshluti örorku segir til um, réttindatíma, sem við úrskurðun örorkulífeyris var reiknaður sjóðfélaganum fram til 65 ára aldurs. Aldrei skal þó slík viðbót við áunninn réttindatíma vera meiri en svo, að heildarréttindatími á framreikningstímabilinu verði lengri en það tímabil sjálft.

4.7

Um örorkulífeyri þeirra, sem ekki uppfylla skilyrði ákvæðis 4.1 um réttinda- og iðgjaldagreiðslutíma, fer eftir ákvæðum 9. gr.

5. gr. Makalífeyrir.

5.1

Nú andast sjóðfélagi og lætur eftir sig maka á lífi, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt til lífeyris úr sjóðnum, enda sé ekki um fleiri rétthafa að ræða sbr. ákvæði 5.5 og 5.6 og sjóðfélaginn hafi við andlátið notið elli- eða örorkulífeyris samkvæmt ákvæðum 3. - 4. gr. eða átt að baki a.m.k. 5 ára réttindatíma og greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum. Eftirlifandi maki samkvæmt þessari málsgrein telst ekki sá, sem skilinn var við sjóðfélagann að borði og sæng fyrir andlát hans.

5.2

Þegar skilyrði ákvæðis 5.1 um réttinda- og iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt, er upphæð makalífeyris 60% af ellilífeyri, þar sem auk áunnins réttindatíma skal reikna réttindatíma fram til 65 ára aldurs í samræmi við ákvæði 4.2. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris samkvæmt ákvæðum 4. gr., skal reikna réttindatíma frá þeim tíma, er örorkulífeyrir er veittur, í samræmi við ákvæði 4.6, en síðan til 65 ára aldurs í samræmi við þann árlega réttindatíma, sem úrskurður um örorkulífeyri miðaðist við. Veiti dauðsfallið hinum eftirlifandi maka rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði, skal hann því aðeins njóta framreikningsréttinda úr þessum sjóði að hinn látni hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.

5.3

Nú hefur sjóðfélagi gengið í hjónaband eftir að hann var orðinn 60 ára eða á þeim tíma, er hann naut lífeyris úr sjóðnum eða hann var lagstur banaleguna, og úrskurðar þá stjórn sjóðsins, hvort eftirlifandi maki hans skuli njóta lífeyris úr sjóðnum eða eigi.

5.4

Nú lætur sjóðfélagi ekki eftir sig maka, en einstæð móðir hans, ógift systir hans eða annar ógiftur aðili hefur sannanlega annast heimili hans um árabil, þó eigi skemur en 5 ár, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að greiða hlutaðeigandi makalífeyri, svo sem um ekkju eða ekkil væri að ræða. Á sama hátt er sjóðstjórn heimilt að greiða sambýlismanni eða sambýliskonu lífeyri, ef sjóðfélagi lætur eftir sig barn innan 18 ára aldurs, sem hann hefur átt með hinu eftirlifandi. Einnig er sjóðstjórn heimilt að greiða sambýliskonu eða sambýlismanni lífeyri í 24 mánuði, þótt ekki sé fullnægt skilyrðum 1. málsliðar um sambúðartíma, eða ef sambúðaraðili er 50% öryrki eða meiri.

5.5

Hafi sjóðfélagi, sem lætur eftir sig maka, sbr. ákvæði 5.1, ellegar sambýlismann eða sambýliskonu, sem úrskurðaður er réttur til lífeyris samkvæmt ákvæði 5.4, áður verið í hjúskap eða sambúð með öðrum á þeim tíma, er hann ávann sér réttindi og/eða naut lífeyris úr sjóðnum, skal makalífeyri skipt milli aðila í hlutfalli við hjúskapar og sambúðartíma á nefndu tímabili, reiknaðan í mánuðum sem hér segir:

a) Eftirlifandi maka samkvæmt ákvæði 5.1 skal reiknaður hjúskapartími að viðbættum sambúðartíma fyrir hjúskap.

b) Eftirlifandi sambýlismanni eða sambýliskonu skal reiknaðar sambúðar- tími samkvæmt ákvæði 5.4.

c) Fyrrverandi maka, sem hvorki er í hjúskap né sambúð á dánardegi sjóðfélaga, skal reiknaður hjúskapartími að viðbættum sambúðartíma fyrir hjúskap.

d) Fyrrverandi sambýlismanni eða sambýliskonu sem hvorki er í hjúskap né sambúð á dánardegi sjóðfélaga, skal reiknaður sambúðartími samkvæmt ákvæði 5.4.

5.6

Láti sjóðfélagi hvorki eftir sig maka skv. ákvæði 5.1 né sambýlismann eða sambýliskonu samkvæmt ákvæði 5.4, skal lífeyrir þeirra aðila, sem nefndir eru í c- og d-lið ákvæðis 5.5, reiknast í hlutfalli við hjúskapar- og sambúðartíma af þeim tíma, sem hinn látni sjóðfélagi ávann sér réttindi í sjóðnum.

5.7

Réttur til makalífeyris fellur niður, ef makinn gengur í hjónaband á ný, en kemur aftur í gildi, sé hinu síðara hjónbandi slitið án réttar til lífeyris. Sama reglan gildir, ef hinn eftirlifandi maki býr samvistum með manni eða konu, meðan samvistum er eigi slitið. Hlutfall lífeyris, sem úrskurðað hefur verið samkvæmt ákvæðum 5.5 eða 5.6 breytist ekki við fráfall eða breytta hjúskaparstöðu annarra rétthafa.

5.8

Uppfylli sjóðfélagi ekki skilyrði ákvæðis 5.1 um réttinda- og iðgjaldagreiðslutíma, fer um makalífeyri eftir ákvæðum 9. gr.

6. gr. Barnalífeyrir.

6.1

Börn eða kjörbörn, sem sjóðfélagi lætur eftir sig, er hann andast, og yngri eru en 18 ára, skulu fá lífeyri úr sjóðnum, þar til þau eru fullra 18 ára að aldri, enda hafi hinn látni séð um framfærslu þeirra að nokkru eða öllu leyti.

6.2

Ef barnið á foreldri eða kjörforeldri á lífi, er sér um framfærslu þess, er samanlagður lífeyrir þess frá almannatryggingum og úr þessum sjóði 50% hærri en barnalífeyrir almannatrygginga. Að öðrum kosti er hinn samanlagði lífeyrir tvöfaldur barnalífeyrir almannatrygginga, en þó skal lífeyrir úr sjóðnum aldrei vera lægri en verða mundi, ef foreldri eða kjörforeldri sæi um framfærslu barnsins.

6.3

Sama rétt öðlast börn og kjörbörn þeirra sjóðfélaga, er njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum samkvæmt ákvæðum 3. eða 4. gr., þó svo, að barnalífeyrir til barna eða kjörbarna örorkulífeyrisþega skal vera jafnmargir hundraðshlutar af fullum barnalífeyri og örorkulífeyrir hans er margir hundraðshlutar af hámarksörorkulífeyri.

6.4

Fósturbörn, er sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, njóta sama réttar og börnum og kjörbörnum er veittur hér að framan.

7. gr. Réttindatími.

7.1

7.1. Réttindatími sjóðfélaga er sá samanlagði tími, sem veitir rétt til greiðslna úr sjóðnum miðað við fullt starf. Réttindatíminn þarf ekki að vera áunninn í samfelldu starfi, en myndast sem:

a) Sá tími, er sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld til sjóðsins er svarar fullu starfi.

b) Sá tími, er sjóðstjórn úrskurðar sjóðfélaga vegna flutnings réttinda frá öðrum lífeyrissjóðum.

7.2

Réttindatími reiknast í árum með tveimur aukastöfum. Réttindatíma hvers sjóðfélaga skal reikna út árlega.

8. gr. Iðgjaldagreiðslur falla niður.

8.1

Nú lætur sjóðfélagi í lifanda lífi af öðrum ástæðum en elli eða örorku af starfi því, er veitti honum aðgang að sjóðnum, og telst hann þá áfram sjóðfélagi í 6 mánuði eftir að launagreiðslur falla niður. Að 6 mánaða tímabili loknu fellur niður réttur til framreiknings réttinda samkvæmt ákvæðum 4. og 5. gr., svo og réttur til barnalífeyris.

8.2

Eigi sjóðfélagi að baki a.m.k. 5 réttindaár, sbr. ákvæði 7. gr., fellur réttur til elli-, örorku- og makalífeyris ekki niður, þótt hann hverfi úr sjóðnum, en miðast eingöngu við áunninn lífeyrisrétt samkvæmt ákvæðum 3. - 5. gr. Sé réttindatími skemmri en 5 ár, fer um réttindi eftir ákvæðum 9. gr.

8.3

Sé staða eða starfi sjóðfélaga lagður niður, á hann rétt á að vera áfram í sjóðnum og greiða iðgjöld, sem miðuð séu við laun í þeim launaflokki, er staða hans var í, er hún var lögð niður. Nýtur hann þá sömu réttinda hjá sjóðnum sem hann hefði gegnt starfi sínu áfram.

9. gr. Réttindi samkvæmt samþykktum SAL.

9.1

Um lífeyrisréttindi eftirtalinna skulu gilda bótaákvæði samræmdra samþykkta Sambands almennra lífeyrissjóða frá 1997. Bótaákvæði reglugerðar SAL fylgja réttindaviðauka þessum sem viðauki og skoðast sem hluti hans.

a) Umsækjenda um elli- eða örorkulífeyri, sem ekki uppfylla skilyrði ákvæða 3. eða 4. gr. um réttinda- og iðgjaldagreiðslutíma.

b) Umsækjenda um makalífeyri eftir sjóðfélaga, sem ekki hafa uppfyllt skilyrði ákvæðis 5. gr. um réttinda- og iðgjaldagreiðslutíma.

c) Umsækjenda, sem ekki teljast lengur sjóðfélagar, sbr. ákvæði 8.1, og eiga að baki skemmri réttindatíma en 5 ár, svo og umsækjenda um makalífeyri eftir slíka fyrrverandi sjóðfélaga.

10. gr. Um greiðslu lífeyris.

10.1

Lífeyrir greiðist mánaðarlega fyrirfram. Stjórn sjóðsins getur gert það að skilyrði fyrir greiðslu lífeyris, að lögð séu fram öll nauðsynleg gögn til að sanna greiðsluskyldu sjóðsins (fæðingarvottorð, dánarvottorð, giftingarvottorð, lífsvottorð o.s.frv.).

10.2

Aldrei skal sjóðstjórn skylt að úrskurða lífeyri lengra aftur í tímann en fjögur ár, reiknuð frá byrjun mánaðar, er umsókn berst sjóðnum.

10.3

Nú nær lífeyrisgreiðsla ekki fjárhæð, er svarar til a.m.k. tveggja stiga réttinda samkvæmt 9. gr., og fyrirsjáanlegt er, að um sameiningu við önnur réttindi verður ekki að ræða, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að inna greiðsluna af hendi í einu lagi samkvæmt reglum í samræmi við tillögur tryggingarfræðings.

11. gr. Eldri réttindi

11.1

Sjóðfélagar, sem njóta lífeyris við gildistöku samþykkta þessara á grundvelli samþykkta sem giltu frá 1.apríl 1968 til 15.desember 1997 skulu áfram taka lífeyri samkvæmt þeim samþykktum. Þann 15. desember 1997 fellur þó niður sú takmörkun á verðtryggingu lífeyris, sem kveðið er á um í 14.gr. þeirrar samþykkta.

11.2

Reikna skal réttindatíma þeirra, sem eiga inni iðgjöld í sjóðnum við gildistöku samþykkta þessara en hafa ekki fyrir þann tíma hafið töku lífeyris, í samræmi við ákvæði 7.gr. Enn fremur skal reikna þeim, sem réttindi eiga samkvæmt 23.gr. samþykkta sem giltu frá 1.apríl 1968 til 15.desember 1997 vegna starfstíma fyrir stofnun sjóðsins, réttindatíma með hliðsjón af ákvæðum 2. - 4. mgr. þeirrar greinar.

11.3

Sjóðfélagi, sem lokið hefur iðgjaldagreiðslum til sjóðsins samkvæmt 7. gr. samþykkta sem giltu frá 1. apríl 1968 til 15. desember 1997 og er orðinn fullra 65 ára að aldri fyrir gildistöku samþykkta þessara, skal ekki greiða iðgjöld samkvæmt 1. gr. Þeir, sem uppfylla þau skilyrði að hafa greitt iðgjöld í a.m.k. 26 ár og allt að 30 árum og orðnir eru 61 árs við gildistöku samþykkta sem staðfestar voru 15.desember 1997, skulu eigi greiða iðgjöld lengur en hér segir:

Liðinn iðgjaldagreiðslutími Aldur við gildistöku Hámark iðgjaldafgreiðslutíma
29 ár 64 ár 31 ár
28 ár 63 ár 33 ár
27 ár 62 ár 36 ár
26 ár 61 ár 40 ár

11.4

Reikna skal hundraðshluta elli- og örorkulífeyris þeirra sjóðfélaga, er málsgrein þessi tekur til, í samræmi við 30 ára iðgjaldagreiðslutíma og bótaákvæði eldri samþykkta, ef sú regla veitir meiri rétt.

11.5

Nú á sjóðfélagi vegna samþykkta bæjarstjórnar Keflavíkur, sem falla undir 5. mgr. 23.gr. samþykkta sem giltu frá 1.apríl 1968 til 15.desember 1997, betri lífeyrisrétt en þann, sem hér er kveðið á um, og heldur hann þá þeim rétti.

11.6

Lífeyrir, sem greiddur kann að verða vegna starfstíma fyrir stofnun sjóðsins, skal endurgreiddur úr bæjarsjóði eða af þeirri bæjarstofnun eða sjálfseignarstofnun, sem í hlut á.

Viðauki við réttindaákvæði úr samþykktum Eftirlaunasjóðs Reykjanesbæjar.

12. Grundvöllur lífeyrisréttinda.

12.1

Samanlögð iðgjöld sjóðfélaga hvert almanaksár skulu umreiknuð í stig, er mynda grundvöll lífeyrisréttinda hans samkvæmt reglugerð þessari.

12.2

Til grundvallar stigaútreikningi skal grundvallarfjárhæð í janúar 1996 vera kr. 49.084,- og breytist hún mánaðarlega, í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá 174,2 stigum. Verði grundvöllur þessi að dómi sjóðsstjórnar ónothæfur mælikvarði, skal hún ákveða annan stigagrundvöll, svo og tengingu hans við fyrri grundvöll. Sama gildir ef stigagrundvöllur sem ákveðinn hefur verið af sjóðsstjórn reynist síðar ónothæfur.

12.3

Stig ársins reiknast þannig, að deilt skal í 10-föld iðgjöld sem greidd hafa verið vegna hlutaðeigandi sjóðfélaga, með grundvallarfjárhæð ársins samkvæmt 12.2. Við útreikning lífeyris reiknast áunnin stig að fullu. Ef um maka- eða örorkulífeyri er að ræða, skal reikna að fullu stig þeirra 30 ára sem hagstæðust eru fyrir sjóðfélagann, en að hálfu stig annarra ára. Þó skal aldrei miða við færri stig en áunnin eru.

12.4

Ekki skal reikna stig fyrir tíma eftir lok þess mánaðar er sjóðfélagi nær 70 ára aldri.

12.5

Stig skulu reiknuð með þremur aukastöfum.

12.6

Verði iðgjöld ekki umreiknuð í stig, sbr. 12.4., skal óska eftir leiðréttingu iðgjaldaskila frá launagreiðanda.

13. gr. Ellilífeyrir.

13.1

Hver sjóðfélagi, sem orðinn er fullra 67 ára að aldri, á rétt á ellilífeyri úr sjóðnum.

13.2

Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af grundvallarfjárhæð, eins og hún er fyrsta dag hvers mánaðar sem lífeyrir er greiddur og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda, sem sjóðfélagi hefur áunnið sér, margfölduðum með 1,4.

13.3

Heimilt er sjóðfélaga að fresta töku ellilífeyris allt til 70 ára aldurs og hækkar þá upphæð ellilífeyris vegna réttinda, sem áunnin voru fram til 67 ára aldurs, um 0,8% fyrir hvern mánuð, sem töku hans er frestað.

13.4

Haldi sjóðfélagi áfram að ávinna sér réttindi, eftir að hann hefur hafið töku ellilífeyris, skulu stig hans reiknuð á ný, er hann hefur náð 70 ára aldri.

14. gr. Örorkulífeyrir.

14.1

Sjóðfélagi, sem verður fyrir orkutapi, sem telja verður að nemi 50% eða meira skv. 14.2 og áunnið sér alls a.m.k. 2 stig, á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin stig fram að orkutapi.

14.1.1

Réttur til örorkulífeyris stofnast ekki, ef sjóðfélagi hefur ekki orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. 16. grein vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.

14.2

Hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess, skal ákvarða að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku umsækjanda aftur í tímann svo og áliti trúnaðarlæknis sjóðsins. Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið, skal mat orkutaps aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi, er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu, skal hundraðshluti orkutaps ákvarðaður að nýju með tilliti til vanhæfni sjóðfélagans til að gegna almennum störfum.

14.2.1

Heimilt er, að fengnu áliti trúnaðarlæknis, að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris, að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans.

14.3

Þegar skilyrði 14.1. og þessa töluliðs eru uppfyllt, miðast hámark örorkulífeyris við áunninn lífeyrisrétt samkvæmt 13. gr. að viðbættum lífeyri, er svarar til þess stigafjölda, sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 67 ára aldurs, reiknað samkvæmt 14.4., margfölduðum með 1,4, enda hafi sjóðfélagi:

a) Greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og áunnið sér eigi minna en 0,5 stig hvert þessara þriggja ára.

b) Greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum.

c) Ekki orðið fyrir orkutapi, sem rekja megi til ofnotkunar áfengis, lyfja, eða fíkniefna.

14.3.1

Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði, skal hann því aðeins njóta framreikningsréttinda úr þessum sjóði, að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.

14.3.2

Hafi sjóðfélagi skipt um starf og af þeim sökum hafið iðgjaldagreiðslur til þessa sjóðs á síðustu 24 mánuðum fyrir orkutap, stofnast ekki réttur til framreiknings í þessum sjóði, ef rekja má starfsskiptin til versnandi heilsufars sem leitt hefur til orkutapsins.

14.3.3

Séu sérstakar ástæður, svo sem aldur sjóðfélaga, búseta hans erlendis eða nám þess valdandi að hann hefur ekki getað uppfyllt tímaskilyrði þau sem nefnd eru í a.-lið 14.3, er sjóðsstjórn heimilt að stytta þann tíma, sem þar er krafist, í tvö undanfarandi almanaksár enda verði talið fullvíst, að orsök örorku verði ekki rakin til tíma fyrir orkutap.

14.4

Eigi sjóðfélagi, sem ekki hefur náð 67 ára aldri er hann verður fyrir orkutapi, rétt samkvæmt 14.3. á framreikningi stiga, skal sá framreikningur vera sem hér segir:

14.4.1

Reikna skal meðaltal stiga sjóðfélaga næstu þrjú almanaksárin fyrir orkutapið. Telji sjóðsstjórnin þetta þriggja ára meðaltal vera sjóðfélaganum óhagstætt, vegna sjúkdómsforfalla eða atvinnuleysis, er henni heimilt að leggja til grundvallar meðaltal stiga fleiri ár aftur í tímann og sleppa úr meðaltalinu því almanaksári, sem lakast er.

14.4.2

Hafi sjóðfélagi haft skerta almenna starfsorku fyrir þann tíma, er hann hóf iðgjaldagreiðslur til sjóðsins og meta má þá starfsorkuskerðingu 50% eða meira, skal reikna meðaltal stiga hans öll þau almanaksár sem hann hefur greitt iðgjöld. Skal miða framreikning við þetta meðaltal.

14.4.3

Nú hafa iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til lífeyrissjóða verið svo stopular, að þær hafa fallið niður eða verið innan við 0,5 stig á ári, fleiri en eitt almanaksár eftir lok þess árs er sjóðfélagi náði 25 ára aldri og sennilegt má telja að vanheilsa, áfengisneysla eða notkun lyfja og fíkniefna hafi átt þátt í stopulum greiðslum og skal þá framreikningstími styttur í hlutfallinu milli fjölda almanaksára, sem árleg stig hafa verið undir 0,5 og fjölda almanaksára frá 25 ára aldri fram til orkutaps. Sama gildir ef stopular iðgjaldagreiðslur stafa af undanskoti frá greiðsluskyldu til lífeyrissjóða.

14.4.4

Nemi árlegt meðaltal, sem miða skal framreikning við samkvæmt liðunum 14.4.1. eða 14.4.2. meira en tveimur stigum, skal reikna með meðaltalinu allt að 10 árum, en síðan til 67 ára aldurs reiknað með tveimur stigum á ári að viðbættum helmingi þeirra stiga sem umfram eru.

14.4.5

Ef rekja má sjúkdóma þá, sem valda orkutapi sjóðfélaga, svo langt aftur í tímann að nemi a.m.k. helmingi almanaksára frá lokum þess árs er sjóðfélagi náði 16 ára aldri, til þess tíma er orkutap telst hafa orðið, skulu framreiknuð stig aldrei reiknast fleiri en þau stig, sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér í lífeyrissjóðum fram að orkutapi.

14.5

Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið, sbr. þó 14.1.

14.6

Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrir fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap. Ekki er greiddur örorkulífeyrir ef orkutap skv. 14.2. hefur varað skemur en í sex mánuði.

14.7

Skylt er sjóðfélaga sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris, að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur, sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris.

14.8

Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra sjóðfélaga, sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn, ef örorkan vex til muna frá því, sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn á þeim tíma er örorkan óx, ekki verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði.

14.9

Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur. Ellilífeyrir skal þá ákveðinn þannig, að auk áunninna stiga skal reikna að þeim hluta, er hundraðshluti örorku segir til um, stig, sem við úrskurðun örorkulífeyris voru reiknuð sjóðfélaganum fram til 67 ára aldurs. Aldrei skal þó slík viðbót við áunnin stig vera meiri en svo, að heildarstigafjöldi hvert almanaksár verði hærri en almennt tíðkast í starfsgrein hlutaðeigandi sjóðfélaga.

15. gr. Makalífeyrir.

15.1

Nú andast sjóðfélagi, sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, eða greitt hafði iðgjald til hans a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum og lætur eftir sig maka og á þá hinn eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum.

15.2

Láti sjóðfélagi eftir sig eitt barn eða fleiri innan 19 ára aldurs, sem hann hefur átt með eftirlifandi maka sínum, skal makalífeyrir greiddur fram að 19 ára aldri yngsta barnsins. Kjörbarn þeirra veitir sama rétt, enda hafi ættleiðingin átt sér stað fyrir 60 ára aldur sjóðfélagans, áður en hann missti starfsorku sína og a.m.k. einu ári áður en hann lést.

15.3

Sé maki a.m.k. 50% öryrki, skal greiddur makalífeyrir meðan sú örorka varir, enda sé eftirlifandi maki yngri en 67 ára.

15.4

Stofnist réttur til makalífeyris skv. 15.1., 15.2., 15.3. eða 17.3. skal fullur makalífeyrir alltaf greiddur að lágmarki í 36 mánuði og 50% makalífeyrir í 24 mánuði til viðbótar.

15.5

Nú lætur sjóðfélagi ekki eftir sig maka og er þá stjórn sjóðsins heimilt að greiða lífeyri samkvæmt 15.1. - 15.4. til aðila, sem sannanlega hefur annast heimili hins látna um langt árabil fyrir andlát hans.

15.6

Upphæð óskerts makalífeyris er hundraðshluti af grundvallarfjárhæð, eins og hún er fyrsta dag hvers mánaðar sem lífeyrir er greiddur og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda, sem sjóðfélaganum er reiknaður, margfölduðum með 0,7. Þegar skilyrði 15.1. um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt, skal auk áunninna stiga telja þau stig, sem ætla má, að sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 67 ára aldurs, reiknuð í samræmi við ákvæði 14.4. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum, skal reikna stig frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir og til þess tíma er makalífeyrir er veittur, allt að 67 ára aldri, í samræmi við ákvæði 14.9., en síðan til 67 ára aldurs í samræmi við stig þau, sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri. Veiti dauðsfallið hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði, skal hann því aðeins njóta framreikningsréttinda úr þessum sjóði, að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. Séu skilyrði 15.1. um iðgjaldagreiðslutíma ekki uppfyllt, ákvarðast upphæð makalífeyris í samræmi við 17.3.

15.7

Ekkja eða ekkill samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem var í hjúskap eða sambúð sem öldungis mátti jafna til hjúskapar við andlátið, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát. Réttur til makalífeyris fellur niður, ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar, sem jafna má til hjúskapar, en gengur aftur í gildi, ef síðara hjónabandinu eða sambúðinni er slitið án réttar til lífeyris.

16. gr. Barnalífeyrir.

16.1

Nú andast sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins eða notið úr honum örorkulífeyris a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum og eiga þá börn hans og kjörbörn, er hann lætur eftir sig og yngri eru en 18 ára, rétt á lífeyri úr sjóðnum til 18 ára aldurs. Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði, skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.

16.2

Fullur barnalífeyrir vegna fráfalls sjóðfélaga er 7.500 kr. með hverju barni fyrir hvern almanaksmánuð. Fjárhæð þessi breytist í hlutfalli við breytingu á grundvallarfjárhæð, sbr. 12.2. Fullur barnalífeyrir greiðist ef árleg stig, áætluð í samræmi við 15.6., eru a.m.k. 1 stig. Séu áætluð árleg stig færri, lækkar barnalífeyrir frá sjóðnum hlutfallslega og fellur niður ef árlegur stigafjöldi er minni en 0,5.

16.3

Sé sjóðfélaga, sem uppfyllir skilyrði 14.3.a. og 14.3.b., úrskurðaður örorkulífeyrir úr sjóðnum vegna 100% örorku, öðlast börn hans, fædd fyrir orkutap eða á næstu 12 mánuðum þar á eftir, svo og kjörbörn, sem ættleidd hafa verið fyrir orkutap, sama rétt og börn látins sjóðfélaga njóta samkvæmt 16.2 með þeirri undantekningu, að fjárhæð fulls barnalífeyris fyrir hvern almanaksmánuð er 5.500 kr. með hverju barni. Sé örorka samkvæmt 14. grein metin lægri en 100%, skal barnalífeyrir sjóðsins vera hlutfallslega lægri. Barnalífeyrir, sem greiddur er vegna örorku sjóðfélaga, fellur ekki niður þó að sjóðfélaginn nái ellilífeyrisaldri.

16.4

Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera mundu ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.

16.5

Barnalífeyrir greiðist framfæranda barnsins.

17. gr. Iðgjaldagreiðslur falla niður.

17.1

Nú falla niður launagreiðslur til sjóðfélaga vegna veikinda eða atvinnuleysis og ávinnur hann sér þá ekki réttindi meðan svo stendur. Tímabil, er iðgjaldagreiðslur hafa sannanlega fallið niður af þessum ástæðum, reiknast ekki með, þegar úrskurða skal hvort skilyrði um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt.

17.2

Falli iðgjaldagreiðslur niður í meira en 6 mánuði samfleytt af öðrum ástæðum en veikindum eða atvinnuleysi, telst hlutaðeigandi ekki lengur til sjóðfélaga. Skulu þá áunnin stig geymd.

17.3

Réttur til elli-, örorku- og makalífeyris fellur ekki niður þótt sjóðfélagi hætti iðgjaldagreiðslu. Rétturinn miðast þá einungis við áunnin geymd stig sbr. þó 17.1. og 17.2.

18. gr. Tilhögun lífeyrisgreiðslna.

18.1

Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á, í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir þann mánuð, er lífeyrisréttur myndaðist og síðasta sinn fyrir þann mánuð, er réttur til lífeyris fellur úr gildi.

18.2

Nú nær lífeyrisgreiðsla ekki fjárhæð, er svarar til a.m.k. eins stigs réttinda og fyrirsjáanlegt er, að um sameiningu við önnur réttindi verður ekki að ræða og er þá stjórn sjóðsins heimilt að inna greiðsluna af hendi í einu lagi, samkvæmt reglum í samræmi við tillögur tryggingafræðings.