Lífeyrissjóður starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar var stofnaður árið 1969. Þann 1. júlí 1998 var sjóðnum lokað fyrir nýjum sjóðfélögum. Þeim einum sem greiddu til sjóðsins í júní 1998 var heimilt að greiða áfram til sjóðsins, enda hafi iðgjald verið greitt til sjóðsins óslitið frá þeim tíma. Þetta eru þeir sem greiddu iðgjöld vegna starfa hjá Húsavíkurkaupstað eða stofnunum bæjarins, falla undir lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og voru iðgjaldaskyldir til sjóðsins. Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga hefur frá 1. júní 1999 haft umsjón með og annast rekstur sjóðsins.
Sumarið 2013 gekk sjóðurinn inn í B-deild Brúar lífeyrissjóðs, ásamt fjórum öðrum sveitarfélagssjóðum og er nú vísað til réttindasafns sjóðsins í daglegu tali.
Tilgangurinn með sameiningunni var að einfalda utanumhald og lækka kostnað.
Með sameiningunni var áhersla lögð á að réttindi sjóðfélaga héldust óbreytt sem og réttindaávinnsla til framtíðar.
Bakábyrgð sveitarfélagsins hélst óbreytt og hún sérgreind fyrir sjóðinn.
Samþykktir Brúar lífeyrissjóðs
Réttindaákvæði úr samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar
1. gr. Iðgjöld til sjóðsins.
1.1
Þeir einir hafa rétt til að greiða iðgjöld til B-deildar sjóðsins:
1.1.1
Þeir sem greiddu iðgjöld vegna starfa hjá Húsavíkurkaupstað eða stofnunum bæjarins, falla undir lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og iðgjaldsskyldir voru til sjóðsins í júní 1998 enda hafi iðgjald verið greitt til sjóðsins óslitið frá þeim tíma.
1.1.2
Falli iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga samkv. gr. 1.1.1 niður vegna launalauss leyfis eða veikindafjarvista hefur hann áfram rétt til aðildar að sjóðnum svo fremi að hann hefji aftur starf sem fellur undir gr. 3.2.1 innan 12 mánaða frá því að iðgjaldagreiðslur féllu niður.
1.1.3
Starfsmenn stéttarfélaga, og bandalaga þeirra, sem falla undir lög nr. 94/1986, og starfsmenn Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, sem eru sjóðfélagar í Lífeyrissjóði starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar er þeir hefja störf hjá ofangreindum aðilum hafa á sama hátt rétt á greiðslu iðgjalda til sjóðsins og þeir sem tilgreindir eru í gr. 1.1.1.
1.1.4
Þeir sjóðfélagar, sem í júní 1998 greiddu iðgjöld vegna þess að staða eða starfi sjóðfélaga hafði verið lagður niður.
1.1.5
Þeim sjóðfélögum, sem í júní 1998 greiddu iðgjöld til sjóðsins er heimil áframhaldandi aðild að sjóðnum flytjist starfsemi stofnunar til ríkisins eða annars opinbers aðila enda ábyrgist launagreiðandi skuldbindingar vegna lífeyris til sjóðsins í samræmi við samþykktir þessar.
1.2
Óheimilt er að veita móttöku iðgjalda vegna annarra frá 1. júlí 1998 sbr. lög nr. 129 frá 1997.
1.3
Iðgjald til sjóðsins er 12% fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót.
1.4
Sjóðfélagar greiða 4% af föstum launum sínum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót í iðgjald til sjóðsins. Launagreiðanda ber að halda iðgjöldunum eftir af launum sjóðfélaga og greiða þau sjóðnum innan tveggja vikna frá útborgun launanna. Sjóðfélagar bera eigi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins nema með iðgjöldum sínum.
1.5
Launagreiðendur greiða 8% af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, er sjóðfélagi tekur hjá þeim, í iðgjöld til sjóðsins og skal greiða þau sjóðnum samtímis iðgjöldum sjóðfélaga.
1.6
Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í 32 ár, falla iðgjaldagreiðslur hans niður. Eftir að iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga falla niður samkvæmt þessari málsgrein eða skv. 95 ára reglu greiðir launagreiðandi 12% af launum þeim sem tilgreind eru í 1. mgr. þessarar greinar í iðgjald til sjóðsins.
1.7
Launþegi sem yngri er en 16 ára greiðir eigi iðgjöld til sjóðsins enda öðlast hann eigi réttindi sjóðfélaga fyrr en hann hefur náð nefndum aldri.
1.8
Iðgjaldagreiðslum skal hætt í lok þess mánaðar sem sjóðfélagi nær 70 ára aldri.
2. gr. Ellilífeyrir.
2.1
Hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins í 12 mánuði eða lengur og er orðinn fullra 65 ára að aldri, á rétt á ellilífeyri úr sjóðnum frá þeim tíma, er hann lætur af störfum og laun hans falla niður.
2.2
Þegar sjóðfélagi hefur náð því að samanlagður lífaldur og þjónustualdur er 95 ár, hann orðinn 60 ára og lætur af störfum, á hann rétt á ellilífeyri úr sjóðnum. Sjóðfélagi sem notfærir sér þessa reglu, skal greiða iðgjöld til sjóðsins þar til 95 ára markinu er náð. Eftirlaunaréttur hans skal vera 2% iðgjaldagreiðsluár, en þó ekki meira en 64 % að náðu 95 ára markinu. Iðgjaldagreiðsluskylda fellur niður, þegar 95 ára markinu er náð. Lífeyrisréttur skal aukast um 2% fyrir hvert ár, frá því að iðgjaldagreiðsluskyldu lýkur og þar til taka ellilífeyris hefst. Notfæri sjóðfélagi sér eigi þessa heimild áður en hann nær 64 ár aldri, skal um iðgjaldagreiðslur hans og ellilífeyri fara eftir hinni almennu reglu um ellilífeyri.
2.3
Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélaginn gegndi síðast. Hundraðshluti þessi fer eftir iðgjaldagreiðslu-tíma og starfshlutfalli sjóðfélagans og er 2% fyrir hvert ár sem iðgjöld hafa verið greidd til sjóðsins. Fyrir hvert starfsár eftir að iðgjaldagreiðslu lýkur og þar til sjóðfélaginn öðlast rétt til að láta af störfum og fá ellilífeyri samkvæmt gr. 2.1 bætist við 1% af launum, en 2% fyrir hvert starfsár eftir að iðgjaldagreiðslu er lokið og hann hefur öðlast rétt til að fá lífeyri.
2.4
Eftir að taka lífeyris hefst skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. gr. 2.3, samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.
2.5
Hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum að minnsta kosti 10 ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum, skal miða ellilífeyrinn við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því í að minnsta kosti 10 ár, ella skal miða við það hærra launaða starf, sem hann að viðbættum enn hærra launuðum störfum gegndi í að minnsta kosti 10 ár.
2.6
Nú hefur sjóðfélagi ekki verið í fullu starfi allan starfstíma sinn og skal þá miða ellilífeyri við meðalhundraðshluta af starfi, annars vegar þann tíma, sem ellilífeyrir reiknast 2% á ári, og hins vegar þann tíma, sem hann reiknast 1% ár ári. Láti sjóðfélagi, sem náð hefur 65 ára aldri, af starfi sínu að hluta, er stjórn sjóðsins heimilt að úrskurða honum hlutfallslegan ellilífeyri. Ellilífeyrir vegna þess hluta starfsins, er hann heldur áfram, skal síðan úrskurðaður, er hann lætur að fullu af starfi
2.7
Heimilt er stjórn sjóðsins að greiða ellilífeyrisþegum á aldrinum 65 til 67 ára uppbót á ellilífeyri allt að einstaklingslífeyri almannatrygginga. Það er skilyrði fyrir slíkri uppbót, að sjóðfélaginn sé ekki lengur fullfær um að gegna starfi sínu. Til sönnunar því ber viðkomandi að leggja fram umsögn yfirmanns síns um starfshæfnina og vottorð trúnaðarlæknis sjóðsins um heilsufar.
2.8
Sjóðfélagar sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi og þeir sem fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við gildistöku samþykkta þessara geta þrátt fyrir ákvæði gr. 2.4 valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við þær breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar fyrir hærra launað starf samkv. ákvæðum gr. 2.5 og 6.1 og 6.2 eða hvort þær skulu breytast samkvæmt ákvæðum gr. 2.4. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal tekin eigi síðar en 3 mánuðum eftir að greiðsla lífeyris hefst.
2.9
Hefji sjóðfélagi ekki töku lífeyris í beinu framhaldi af því að hann lætur af starfi, sem veitti honum aðild að sjóðnum skal upphæð ellilífeyris ákveðin þannig að miða skal við þau laun sem iðgjöld voru síðast greidd af til sjóðsins með breytingum í samræmi við meðalbreytingar, sem urðu á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu frá því og þar til taka lífeyris hefst sbr. gr. 2.4. Hafi hann látið af störfum fyrir 31. júlí 2000 skal þó miða við þau laun, sem því starfi fylgdu 31. júlí 2000, en eftir það samkvæmt framangreindri reglu.
2.10
Sé starf sem verið hefur til viðmiðunar fyrir breytingar á lífeyri samkvæmt 2.8 lagt niður skulu breytingar á lífeyri þeirra sem haft hafa viðmiðun við það, upp frá því fara eftir 2.4.
3. gr. Viðbótarlífeyrir vaktavinnufólks.
3.1
Vaktavinnufólk, það er þeir sjóðfélagar sem hafa vinnutíma sem hreyfist með reglubundnum hætti, skal fá rétt til sérstaks viðbótarlífeyris (ellilífeyris, örorkulífeyris eða makalífeyris) úr lífeyrissjóðnum, enda sé þeim skylt að greiða iðgjald af vaktaálagsgreiðslum til sjóðsins.
3.2
Sama gildir um næturverði og það starfsfólk sem hefur vinnuskyldu eingöngu á næturnar, það er á tímabilinu frá kr. 22.00 – 09.00 og skal þá álagsgreiðslan verða grundvöllur iðgjalda og lífeyrisréttinda.
3.3
Sjóðfélagi greiði 4% af vaktaálaginu í iðgjöld og launagreiðandi 8%.
3.4
Stjórn sjóðsins ákveður á hverjum tíma hver skuli verða viðmiðunarmánaðarlaun þau sem lífeyririnn ákvarðast af og iðgjaldið er metið eftir. Breyti sjóðsstjórn viðmiðunarmánaðarlaununum skal hún jafnframt ákveða hvort og þá hvernig skuli umreikna áunninn lífeyrisrétt fyrri ára.
3.5
Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga af vaktaálagi skulu ár hvert metnar þannig til lífeyrisréttinda að reiknað sé hvað iðgjaldagreiðslur ársins samsvara margra mánaða iðgjaldagreiðslu af viðmiðunarlaunum.
3.6
Fyrir jafngildi hverra 12 mánaða iðgjaldagreiðslu ávinnst réttur til ellilífeyris sem nemur 2% af viðmiðunarlaunum og réttur til makalífeyris sem nemur 1% af viðmiðunarlaunum.
4. gr. Örorkulífeyrir.
4.1
Hver sjóðfélagi sem vegna heilsubilunar verður ófær til að gegna því starfi, sem hann hefur gegnt þangað til, og eigi á kost á öðru jafngóðu starfi við hans hæfi hjá bænum eða stofnun, sem tryggir starfsfólk sitt í sjóðnum, eða missir einhvern hluta af launum sínum sökum slíkrar örorku, á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum, ef trúnaðarlæknir sjóðsins metur örorkuna meiri en 10%, enda hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld til sjóðsins undanfarin 3 almanaksár og a.m.k. í 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum. Örorkumat skal aðallega miðað við vanhæfi sjóðfélaga til að gegna starfi því, er hann hefur gegnt að undanförnu.
4.2
Hámark örorkulífeyris miðast við áunninn lífeyrisrétt samkvæmt gr. 2.3 að viðbættum einstaklingslífeyri almannatrygginga. Ef rekja má aðalorsök örorkunnar til starfs í þágu stöðu þeirrar sem öryrkinn gegndi, skal þó reikna áunninn lífeyrisrétt eins og sjóðfélaginn hefði gegnt stöðu sinni til 65 ára aldurs. Áunnin lífeyrisréttindi skulu reiknast af launum í því starfi sem sjóðfélaginn gegndi síðast, eins og þau eru á hverjum tíma.
4.3
Sé örorka sjóðfélagans á milli 10% og 50% er örorkulífeyrir hans sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri eins og örorkan er metin. Sé örorkan metin 50% til 75%, er örorkulífeyririnn 50% af hámarkinu að viðbættum 2% af því fyrir hvert 1%, sem örorkan er metin umfram 50%. Sé örorkan metin 75% eða meira, greiðist hámarksörorkulífeyrir að frádregnum örorkulífeyri almannatrygginga. Þegar öryrki, sem metinn er undir 75%, nær 65 ára aldri, fær hann greidd eftirlaun samkvæmt ákvæðum 2. gr. Frá sama tíma fellur niður örorkulífeyrir hans. Þó skal hann halda til 67 ára aldurs þeim hluta hans, sem miðaður er við lífeyri almannatrygginga.
4.4
Skylt er öryrkja, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur hans, að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt, sem nauðsynlegar er til að dæma um rétt hans til örorkulífeyris.
4.5
Stjórn sjóðsins er heimilt að lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja, sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber stjórn sjóðsins að hækka örorkulífeyrinn, ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því, sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi öryrkinn á þeim tíma, sem örorkan óx ekki verið í þjónustu annarra aðila.
4.6
Sjóðfélagar sem hefja töku örorkulífeyris í beinu framhaldi af starfi og þeir sem fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við gildistöku samþykkta þessara geta þrátt fyrir ákvæði gr. 2.4 valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við þær breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast eða hvort þær skulu breytast samkvæmt ákvæðum gr. 2.4. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal tekin eigi síðar en 3 mánuðum eftir að greiðsla lífeyris hefst.
5. gr. Makalífeyrir.
5.1
Nú andast sjóðfélagi og lætur eftir sig maka á lífi, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt til lífeyris úr sjóðnum, enda hafi hjónabandinu eigi verið slitið að lögum, áður en sjóðfélagi lést.
5.2
Upphæð makalífeyris er hundraðshluti af þeim launum þeim sem eru til viðmiðunar ellilífeyris sjóðfélagans samkv. gr. 2.4 eða eftir atvikum gr. 2.8. Maki sjóðfélaga hefur sömu heimildir til breytinga á viðmiðun makalífeyris og sjóðfélaginn, sbr. gr. 2.8 Hundraðshluti þessi fer eftir iðgjaldagreiðslutíma og er 20% að viðbættu 1% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár, allt að 32 árum. Fyrir hvert starfsár, eftir að iðgjaldagreiðslu lauk, en áður en sjóðfélaginn öðlaðist rétt til eftirlauna, bætist við 0,5% af launum, en 1% fyrir hvert starfsár, eftir að iðgjaldagreiðslu var lokið og hann öðlaðist rétt til að taka ellilífeyri. Hafi sjóðfélagi ekki verið í fullu starfi allan starfstíma sinn, skal miða lífeyri við meðalhundraðshluta af starfi með sama hætti og segir í gr. 2.6.
5.3
Nú hefur sjóðfélagi gengið í hjónaband eftir að hann var orðinn 60 ára, eða á þeim tíma, er hann naut lífeyris úr sjóðnum eða hann var lagstur banaleguna, og úrskurðar þá stjórn sjóðsins, hvort eftirlifandi maki hans skuli njóta lífeyris úr sjóðnum eða eigi.
5.4
Réttur til lífeyris samkvæmt þessari grein fellur niður, ef hinn eftirlifandi maki gengur í hjónaband að nýju, en kemur aftur í gildi, sé hinu síðara hjónabandi slitið, enda veiti hið síðara hjónaband eigi rétt til lífeyris úr sjóðnum, eða úr einhverjum öðrum lífeyrissjóði. Sama regla gildir, ef hinn eftirlifandi maki býr samvistum með manni eða konu, meðan samvistum er eigi slitið.
5.5
Nú lætur sjóðfélagi ekki eftir sig maka, en einstæð móðir hans, ógift systir eða annar ógiftur aðili hefur sannanlega annast heimili hans um árabil fyrir andlát hans, þó eigi skemur en 5 ár, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að greiða hlutaðeigandi makalífeyri, svo sem um ekkju eða ekkil væri að ræða. Á sama hátt er sjóðsstjórn heimilt að greiða sambýlismanni eða sambýliskonu lífeyri ef sjóðfélagi lætur eftir sig barn innan 18 ára aldurs sem hann hefur átt með hinu eftirlifandi. Einnig er sjóðsstjórn heimilt að greiða sambýliskonu eða sambýlismanni lífeyri í 24 mánuði þótt ekki sé fullnægt skilyrðum 1. málsliðar um sambúðartíma, eða ef sambúðaraðili er 50% öryrki eða meira.
6. gr. Um frestun á töku lífeyris.
6.1
Nú frestar sjóðfélagi að taka ellilífeyri og tekur jafnframt við öðru starfi hjá bænum lægra launuðu en því, er hann gegndi áður og skal þá reikna ellilífeyri eftir því starfinu sem hærra var launað.
6.2
Sama regla gildir, þegar sjóðfélagi verður af heilsufarsástæðum að láta af stöðu sinni, en tekur við öðru léttara og lægra launuðu starfi, er veitir aðgang að sjóðnum. Þegar svo stendur á, sem í þessari málsgrein ræðir um, er sjóðfélaga heimilt að kaupa sér réttindi í sjóðnum fyrir þann tíma, sem úr hefur fallið. Stjórn sjóðsins getur krafist vottorðs trúnaðarlæknis sjóðsins til sönnunar því, að sjóðfélaginn verði að láta af stöðu sinni vegna heilsubrests.
6.3
Þegar lífeyrisgreiðslur skulu miðast við hærra launað starf en lokastarf skv. gr. 6.1 eða 6.2 eða samkv. gr. 2.3 skal ákvörðun um lífeyri miða við meðalhækkanir á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu skv. 2.4 frá þeim tíma er starfsmaður lætur af sínu hærra launaða starfi og þar til taka lífeyris hefst.
7. gr. Barnalífeyrir.
7.1
Börn eða kjörbörn, sem sjóðfélagi lætur eftir sig, er hann andast, og yngri eru en 18 ára, skulu fá árlegan lífeyri úr sjóðnum, þar til þau eru fullra 18 ára að aldri enda hafi hinn látni séð um framfærslu þeirra að nokkru eða öllu leyti. Ef barnið á foreldri eða kjörforeldri á lífi, er sér um framfærslu þess, er samanlagður lífeyrir þess frá almannatryggingunum og úr þessum sjóði 50% hærri en barnalífeyrir almannatrygginga. Að öðrum kosti er lífeyririnn tvöfaldur barnalífeyrir almannatrygginga.
7.2
Sama rétt öðlast börn og kjörbörn þeirra sjóðfélaga, er njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, þó svo, að barnalífeyrir úr þessum sjóði til barna eða kjörbarna örorkulífeyrisþega skal vera jafn margir hundraðshlutar af fullum barnalífeyri eins og örorkulífeyrir hans er margir hlutar af hámarksörorkulífeyri.
7.3
Fósturbörn er sjóðsfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, njóta sama réttar og börnum og kjörbörnum er veittur hér að framan.
8. gr. Úrgöngur úr sjóðnum.
8.1
Nú lætur sjóðfélagi af öðrum ástæðum en elli eða örorku af stöðu þeirri, er veitti honum aðgang að sjóðnum, og telst hann þá áfram sjóðfélagi í 6 mánuði eftir að launagreiðslur falla niður, enda hafi iðgjöld ekki verið endurgreidd á því tímabili, sbr. 9. gr.
8.2
Hafi sjóðfélagi greitt iðgjöld til sjóðsins 12 mánuði eða lengur, fellur réttur til elli-, örorku- og makalífeyris ekki niður, þótt hann hverfi úr sjóðnum, en miðast við áunninn lífeyrisrétt, þó með þeirri breytingu, að makalífeyrir skal þá aðeins nema 1% af launum fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár að viðbættum 0,5% af launum fyrir hvert starfsár eftir að iðgjaldagreiðslu lauk, sbr. 5.2.
8.3
Sé staða eða starfi sjóðfélaga lagður niður, á hann rétt á að vera áfram í sjóðnum og greiða iðgjöld, sem miðuð séu við laun í þeim launaflokki, er staða hans var í, er hún var lögð niður. Nýtur hann þá sömu réttinda úr sjóðnum sem hann hefði gegnt starfi sínu áfram.
9. gr. Um flutning réttinda á milli sjóða.
9.1
Stjórn sjóðsins er heimilt að semja um að taka við réttindum, sem sjóðfélagar eiga í öðrum lífeyrissjóðum, eða flytja réttindi sjóðfélaga þessa sjóðs til annars lífeyrissjóðs enda sé slíkt heimilt samkvæmt lögum. Við slíkan réttindaflutning skal þess gætt að sjóðurinn beri ekki skaða af honum. Stjórn sjóðsins skal semja við aðra lífeyrissjóði um hvernig skuli fara með réttindi þeirra sem flytjast á milli sjóða og setja nánari reglur þar um. Slíkir samningar eru þó ekki bindandi fyrir sjóðinn, fyrr en þeir hafa hlotið staðfestingu þeirra aðila sem nefndir eru í gr. 51.
9.2
Heimilt er skv. umsókn að endurgreiða iðgjöld erlendra ríkisborgara sem hverfa úr sjóðnum vegna brottflutnings úr landi, enda sé slík endurgreiðsla ekki óheimil samkvæmt milliríkjasamningum, sem Ísland er aðili að. Heimilt er að draga frá endurgreiddu iðgjaldi að viðbættum vöxtum kostnað vegna tryggingaverndar, sem sjóðfélaginn hefur notið, og kostnað vegna umsýslu samkvæmt mati tryggingafræðings. Óheimilt er að endurgreiða iðgjöld ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES) skv. gildandi milliríkjasamningum.
9.3
Aðild að sjóðnum fellur niður ef sjóðfélagi fær útborguð réttindi sín í einu lagi eða þau flytjast samkvæmt gr. 9.1. í annan lífeyrissjóð.
10. gr. Um greiðslur lífeyris.
10.1
Lífeyrir greiðist mánaðarlega fyrir fram í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir þann mánuð þegar lífeyrisréttur myndaðist og í síðasta sinn fyrir þann mánuð þegar réttur til lífeyris fellur úr gildi.
10.2
Nú nær mánaðarleg greiðsla lífeyris ekki kr.3.077 á mánuði, og er þá heimilt að inna greiðsluna af hendi í einu lagi í samræmi við tillögur tryggingastærðfræðings. Fjárhæð þessi tekur breytingum til samræmis við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs miðað við 410,7 fyrir mars 2013.
11. gr. Réttur þeirra, sem njóta lífeyris við gildistöku.
Sjóðfélagar, sem njóta lífeyris við gildistöku samþykktar þessarar, skulu frá þeim tíma taka lífeyri samkvæmt ákvæðum hennar.
12. gr. Ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins
12.1
Norðurþing ábyrgist skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar.
13. gr. Bráðabirgðaákvæði.
Þeir, sem gerðust aðilar að sjóðnum með iðgjaldagreiðslum frá 1. janúar 1964 skulu njóta fullra elli-, örorku- og makalífeyrisréttinda eftir starfsaldri hjá Húsavíkurkaupstað og stofnunum hans. Skal Húsavíkurkaupstaður og stofnanir hans endurgreiða sjóðnum þann lífeyri, sem greiddur verður samkvæmt ákvörðun fyrstu málsgreinar í þessari grein.