Fullbúin nýbygging afhent til sjóðfélaga
Hægt er að sækja um lán með veði í nýbyggingu að uppfylltum skilyrðum. Ef eignin er ekki fullbúin þegar sótt er um lánið þarf að gera ráð fyrir að eignin verði komin á viðeigandi byggingar- og matsstig við afhendingu. Hafa þarf í huga að Brú lánar ekki hærra lán en samtala brunabótamats og lóðarmats eignar og hámarks veðhlutfall er 75% af kaupverði. Því þarf eignin að vera komin á byggingarstig B3 (áður 6) (fullgerð án lóðarfrágangs) og matsstig 8 (ófullgerð en tekin í notkun) og brunabótamatið uppfært og komið á eignarnúmerið. Brunatrygging ein og sér nægir ekki.
- Uppfært brunabótamat.
- Uppfært lóðarmat.
- Á byggingarstigi B3 (áður 6) og matsstigi 8 við afhendingu.
Dæmi um kaup á nýbyggingu:
- Eign er keypt á kr 50.000.000 og sótt er um 75% lántöku eða kr 37.500.000. Að undangengnu greiðslumati og samþykkt sjóðsins þá er gefið út lánsloforð um þá fjárhæð með þeim fyrirvara að eignin sé komin á að lágmarki byggingarstig B3 (áður 6) og matstig 8 og með uppfærðu brunabótamati og lóðarmati. Samtala þeirra má ekki vera lægri en sú fjárhæð sem lántakan á að vera eða kr 37.500.000,-.
- Þegar eignin er komin á uppfærð stig með uppfærðu brunabótamati og lóðarmati og samtala þeirra ekki lægri en fjárhæðin sem sótt var um getur sjóðurinn afgreitt út lánin. Sjóðsfélagi þarf að vera vakandi fyrir því að uppfæra sjóðinn þegar eignin er komin á rétt stig er fasteignasalan uppfærir hann.
- Ef þannig ber við að samtala brunabótamats og lóðarmats verði lægra en lántaka þá þarf sjóðsfélagi að finna sér aðra viðbótarfjármögnun til að klára kaupin og vera meðvitaður um þá áhættu.
Lán fyrir hús í smíðum
Hús í smíðum telst veðhæft ef eign er skráð á byggingarstig B2 (áður 4) (fokheld) eða hærra. Hámarksveðsetning er þá 55% af fasteignarmati. Nauðsynlegt er að leggja fram brunatryggingarvottorð frá tryggingarfélagi ásamt upplýsingum um hvernig umsækjandi hyggst ljúka framkvæmdum á eigninni, fjármögnun þeirra og eigið fé. Óheimilt er að breyta eða segja upp brunatryggingu.
- Hámark veðsetning er 55%.
- Byggingarstig B2 (áður 4) (fokheld) eða hærra.
- Brunatryggingarvottorð.
- Upplýsingar um framvindu framkvæmda.
- Upplýsingar um fjármögnun framkvæmda.
- Upplýsingar um eigið fé.
Næsta skref: Þegar hús í smíðum er komið á byggingarstig B3 (áður 6) og matsstig 8 getur sjóðfélagi valið að sækja um endurfjármögnun þar sem eldra lán er greitt upp með nýju láni. Þá er hægt að sækja um heildarveðsetningu að hámarki 65% af fasteignamati eignar. Uppfylla þarf almennar kröfur um lánveitingu og þarf m.a. að leggja fram uppfært brunabótamat og lóðarmat (hafa þarf í huga að Brú lánar ekki hærra lán en samtala brunabótamats og lóðarmats eignar).
Nýlegar breytingar á byggingarstigum
Með haustinu 2023 uppfærði HMS skráningar sínar til samræmis við ÍST51:2021. Með uppfærslunni voru teknar upp nýjar skilgreiningar á byggingarstigum og þeim fækkað niður í fjögur stig. Í stað eldri byggingarstiga sem skráð hafa verið með númerunum 1-7 urðu ný byggingarstig einkennd með bókstaf og tölustaf; B1, B2, B3 og B4. Við hvetjum fólk til þess að lesa sér til um nýlegar breytingar á byggingarstigum og hvernig þeim ber saman við þau eldri.
Eldri byggingarstigin | RSK.is leiðbeiningar