Aðstæður geta breyst frá upphaflegum forsendum þegar lán er tekið og því getur verið nauðsynlegt að óska eftir breytingum á láni, meðal annars til að lækka greiðslubyrði. Hér má finna upplýsingar um hvaða breytingar hafa lækkandi áhrif á greiðslubyrði og önnur úrræði eins og tímabundin frestun greiðslna. Í sumum tilfellum getur þurft að fá samþykki síðari veðhafa og framkvæma greiðslumat. Öllum breytingum á láni er þinglýst.
Lenging lánstíma lækkar greiðslubyrði láns.
Lenging eða stytting á lánstíma hefur áhrif á greiðslubyrði láns. Til þess að lækka greiðslubyrði á láninu þínu getur þú sótt um að lengja lánstíma þess.
Breyta úr óverðtryggðu yfir í verðtryggt.
Greiðslubyrði er misjöfn eftir því hvort lán er verðtryggt eða óverðtryggt. Breyting yfir í verðtryggt lán getur haft lækkandi áhrif á greiðslubyrði.
Jafnar greiðslur eða jafnar afborganir?
Greiðslutilhögun getur verið með jöfnum greiðslum eða jöfnum afborgunum. Breyting yfir í jafnar greiðslur getur haft lækkandi áhrif á greiðslubyrði.
Tímabundin frestun á greiðslum vegna breyttra aðstæðna.
Við breyttar aðstæður er hægt að fresta greiðslum á láninu þínu í þrjá, sex, níu eða tólf mánuði. Greiðslur sem frestast bætast við höfuðstól lánsins og lánið lengist um tólf mánuði.
Tímabundin lækkun á greiðslubyrði.
Mánaðarleg greiðslubyrði af láni er lækkuð um 30% í tólf mánuði. Þetta er gert með því að fresta hluta af greiðslunum, bæta frestaðri fjárhæð við höfuðstól lánsins og lengja lánið um tólf mánuði.