Stjórn sjóðsins samþykkti á fundi sínum 16. október sl. breytingar á samþykktum sjóðsins sem mótvægi til að tryggja að lífeyrisréttindi sem sjóðfélagar ávinna sér yfir starfsævi sína dugi til greiðslu ævilangs lífeyris. Nú er verið að taka annað og þriðja skref í breytingum en fyrr á árinu bættust við samþykktirnar réttindatöflur sem taka bæði mið af aldri og fæðingarári og ávinnsla réttinda til framtíðar var lækkuð.
Breytingarnar taka gildi í janúar 2024 og varða framtíðarréttindi í jafnri ávinnslu í A deild en einnig verða áunnin réttindi í bæði A deild og V deild sjóðsins lækkuð um 10%. Ástæða breytinganna er fyrst og fremst nýtt reiknilíkan Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga á lífslíkum sem tók gildi í árslok 2021 þar sem gert er ráð fyrir að lífaldur muni halda áfram að hækka sem leiddu til að skuldbindingar sjóðsins hækkuðu verulega og umfram lagaleg viðmið en einnig hafði slök ávöxtun sjóðsins á árinu 2022 neikvæð áhrif á stöðu sjóðsins.