Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga verður héðan í frá nýtt nafn Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og fylgir nýju nafni bæði nýtt útlit fyrir sjóðinn og heimasíða.
Ákveðið var í kjölfar ítarlegrar stefnumótunarvinnu hjá stjórn og starfsmönnum sjóðsins að finna nýtt og þjálla heiti fyrir sjóðinn um leið og útlit hans og heimasíða voru færð í nútímalegri búning. Brú er lýsandi heiti fyrir lífeyrissjóð sem hefur það hlutverk að tryggja örugga afkomu og létta leiðina milli æviskeiða. Brúin í merkinu endurspeglar þessa tengingu æviskeiðanna, en litirnir lýsa lífsgleði og hinum fjölbreyttu verkefnum sem sjóðfélagar sinna í samfélaginu. Þá þótti Brú lífeyrissjóður sérstaklega gott heiti fyrir sjóð sem er ætlaður starfsmönnum sveitarfélaga um allt land og minnir á þær fjölmörgu brýr sem tengja sveitarfélögin hvort sem átt er við samgöngur eða samstarf þeirra á milli.
Ný heimasíða - lifbru.is og umsóknargátt
Markmið sjóðsins er að nýja heimasíðan www.lifbru.is verði upplýsandi og þægileg í notkun. Tekið er stórt skref í rafrænni þjónustu við sjóðfélaga en á heimasíðunni er nú sérstök umsóknargátt með öllum umsóknareyðublöðum sjóðsins sem verða eingöngu gerðar með rafrænum hætti, en jafnframt verður þar hægt að fylgjast með framvindu mála. Með þeim hætti viljum við veita sjóðfélögum okkar betri og skilvirkari þjónustu.
Vertu velkomin/n
Við bjóðum sjóðfélaga velkomna á skrifstofu sjóðsins að Sigtúni 42 í Reykjavík. Þeir geta líka haft samband við okkur í síma 5 400 700 eða tölvupóst bru@lifbru.is. Fyrirspurnir vegna réttinda- og lífeyrismála er best að senda á lífeyrisdeildina okkar á netfangið lifeyrir@lifbru.is, en fyrirspurnir varðandi sjóðfélagalán á netfangið lanamal@lifbru.is.