Fara í efni

Breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga og hækkun á almennu frítekjumarki ellilífeyris

Við bendum á frétt á vef Stjórnarráðsins um nýtt örorkulífeyriskerfi almannatrygginga sem tekur gildi þann 1. september 2025. Breytingarnar snúa að örorkulífeyri Tryggingastofnunar.

Síðastliðinn júní samþykkti Alþingi frumvarp Guðmundar Inga Guðbranssonar, félags- og vinnumarkaðsráherra, um breytingar á örorkulífeyriskerfinu. Segir ráðherra markmiðið vera einfaldara og réttlátara örorkulífeyriskerfi og bætt kjör og aukin tækifæri örorkulífeyrisþega til atvinnuþáttöku.

Í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins segir m.a. að um 95% örorkulífeyrisþega munu fá hærri greiðslur í nýja kerfinu og að áhersla sé lögð á hvata til atvinnuþáttöku og að ryðja burt hindrunum fyrir þau sem geta og vilja fara út á vinnumarkað. Stuðningur verði aukinn á meðan á endurhæfingu stendur og samvinnu þjónustukerfa komið á.

 

Hækkun almenns frítekjumarks ellilífeyris

Í frumvarpinu er einnig fjallað um hækkun almenns frítekjumarks ellilífeyris almannatrygginga og aukið fjárframlag til verkefna sem byggja á heildarsýn ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttafólks og innflytjanda, m.a. aukin íslenskukennsla.

  • Almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar um 46% eða sem nemur 138.000 krónum á ári á einstakling.
  • Fyrirhugaðar breytingar taka gildi þann 1. janúar nk. og fylgir ellilífeyrir eftir það reglubundinni hækkun á bótum almannatrygginga, líkt og á við um frítekjumörk í örorkulífeyriskerfinu eftir lagabreytingar þar að lútandi síðastliðið vor.
  • Í frumvarpinu er einnig kveðið á um 200 milljóna króna viðbótarframlag vegna Gott að eldast en þar taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti.
  • Þá hækka bætur almannatrygginga um 4,3% nú um áramótin vegna launa og verðlags.

Fréttatilkynning Stjórnarráðsins um breytingar á örorkulífeyriskerfinu og hækkun á almennu frítekjumarki ellilífeyris.