Fara í efni

Ársreikningur Brúar lífeyrissjóðs fyrir árið 2022

Stjórn sjóðsins hefur samþykkt ársreikning sjóðsins fyrir árið 2022.

Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris í árslok nam 338,5 ma.kr. en var 342,0 ma.kr. í lok árs 2021 og lækkaði um 3,5 ma.kr. milli ára. Hrein nafnávöxtun var neikvæð um 4,7% og hrein raunávöxtun neikvæð um 12,9%.

Sjóðfélagar og iðgjöld

Iðgjöld námu 23,3 ma.kr. á árinu 2022 (2021: 21,0 ma.kr.), þar af voru 3,0 ma.kr. vegna aukaframlaga. Alls greiddu að meðaltali 21.313 einstaklingar iðgjöld til sjóðsins (2021: 20.757) og skiptust þeir milli sjóðsdeilda sem hér segir:

Lífeyrisþegar og lífeyrisgreiðslur

Sjóðurinn greiddi 10,2 ma.kr. í lífeyri á árinu 2022 (2021: 8,8 ma.kr.), þar af 7,3 ma.kr. í ellilífeyri og 2,1 ma.kr. í örorkulífeyri. Að meðaltali fengu 10.415 einstaklingar greiddan lífeyri frá Brú á árinu 2022 (2021: 9.736) og skiptust þeir milli sjóðsdeilda sem hér segir:

Tryggingafræðileg staða

Tryggingafræðileg úttekt er gerð sérstaklega fyrir hverja deild sjóðsins og undirliggjandi réttindasöfn. Við úttektina er miðað við að raunávöxtun eigna verði 3,5% á komandi árum.

Heildarskuldbinding og hlutfall heildareigna umfram heildarskuldbindingu skiptist á milli sjóðsdeilda sem hér segir:

Niðurstaða tryggingafræðilegrar athugunar fyrir A deild er utan þeirra marka sem áskilin eru í 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sjóðurinn mun bregðast við þeirri stöðu með breytingu á réttindum um leið og tillögur frá tryggingastærðfræðingi sjóðsins liggja fyrir.

Niðurstaða tryggingafræðilegrar athugunar fyrir V deild er annað árið í röð yfir 5% viðmiði en ef sá munur er samfellt þannig í fimm ár þarf að bregðast við stöðunni með breytingu á réttindum.

Breytingar voru gerðar á samþykktum A og V deildar í byrjun árs 2023. Ástæða breytinganna voru fyrst og fremst vegna hækkunar lífaldurs Íslendinga og hækkunar á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða. Breytingarnar varða framtíðarávinnslu réttinda í aldurstengdri ávinnslu þar sem ávinnsla réttinda til framtíðar var lækkuð. Samþykktirnar hafa því nýjar réttindatöflur sem taka mið af bæði aldri og fæðingarári sjóðfélaga.

Næstu skref í breytingum á samþykktum varða framtíðarávinnslu í jafnri ávinnslu í A deild en einnig verður vart komist hjá því að breyta áunnun réttindum deildarinnar.

Ávöxtun ársins

Raunávöxtun sjóðsins var neikvæð um 12,9% á árinu og nafnávöxtun neikvæð um 4,7%. Sú niðurstaða er aðeins lýsandi fyrir síðastliðið ár. Lífeyrissjóðurinn er langtímafjárfestir og hefur skilað góðri ávöxtun síðustu ár að undanskildu árinu 2022. Meðalávöxtun síðustu 10 ára er 3,6%, sem er yfir því viðmiði sem lífeyrissjóðir setja sér, en gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðir nái 3,5% raunávöxtun á ári að meðaltali.

Árið 2022 einkenndist af stórfelldum breytingum í hagkerfum heimsins og áttu eignamarkaðir undir högg að sækja allt árið og virðist sem fáir eignaflokkar hafi farið varhluta af ótryggum ytri aðstæðum. Allir helstu hlutabréfamarkaðir lækkuðu töluvert á liðnu ári. Eftir tímabil lágra vaxta og mikillar peningaprentunar hreiðraði verðbólga um sig og fór hratt vaxandi á árinu. Seðlabankar heims hafa brugðist við ástandinu með hröðum og miklum vaxtahækkunum með tilheyrandi áhrifum á eftirspurn og eignaverð. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa á helstu mörkuðum hækkaði á árinu ásamt því sem áhættuálag fyrirtækjabréfa hækkaði töluvert.

 

 

Helstu stærðir ársins koma fram í töflunni hér og fjárhæðir eru í milljónum króna:

 

Ársreikningur 2022