Hvernig sæki ég um eftirlaun?
Sótt er um eftirlaun inni á Mínum síðum - umsóknir eða með því að ýta á hlekkinn fyrir neðan. Ef þú ert ekki með rafræn skilríki getur þú haft samband við sjóðinn. Eftirlaun greiðast ævilangt og eru útborguð mánaðarlega.
Sækja um eftirlaun, A og V deild
Hvar get ég séð réttindi mín?
Lífeyrisgáttin sýnir þér öll þau réttindi sem þú hefur unnið þér inn á starfsævinni. Hún sýnir réttindi í samtryggingarsjóði - ekki í séreignarsjóði. Lífeyrisgáttin er góð leið til þess að finna upplýsingar og svara spurningum eins og:
- Hverju má ég búast við þegar ég hætti að vinna?
- Hverjar verða tekjur mínar?
- Hvaða réttindi á ég og hvar?
- Er hægt að nálgast yfirlit yfir lífeyrisréttindi mín?
Hér getur þú nálgast Lífeyrisgáttina
Sjá áætluð réttindi í lífeyrisreiknivélinni
Hvað þarf ég langan fyrirvara til að sækja um?
Það tekur sjóðinn a.m.k. fimmtán daga að vinna umsókn þína. Til að fá útborgað fyrsta dag næsta mánaðar þarf sjóðurinn að hafa móttekið umsókn þína um eftirlaun fyrir 15. dag mánaðarins á undan.
Er flókið að sækja um ef ég á réttindi í mörgum lífeyrissjóðum?
Þú getur sótt um hjá einum af þeim lífeyrissjóðum sem þú greiddir til og óskað eftir að sjóðurinn sendi umsókn þína á aðra lífeyrissjóði. Þess ber þó að geta að reglur sjóða um starfslokaaldur eru mismunandi og geta haft áhrif á réttindi þín hvenær þú sækir um lífeyri. Því er ráðlagt að þú kynnir þér reglur sjóðanna fyrst.
Get ég minnkað við mig vinnu og verið á lífeyri?
Almennt séð er hægt að taka út lífeyri og halda áfram að vinna.
Reglurnar er mismunandi eftir deildum, svo þú þarft að kanna nánar réttindi þinnar deildar til að fá nánari svar við þessari spurningu.
Réttindi við starfslok
Réttindi eru sambærileg í A og V deild en B og R deildir eru töluvert frábrugðnar. Þú þarft því að skoða þína deild sérstaklega til að vita hver réttindi þin eru við starfslok.
Ef þú ert ekki viss í hvaða deild þú ert geturðu farið inn á Lífeyrisréttindin mín og athugað málið. Þar inni er hægt að skoða Lífeyrisgáttina og kanna réttindastöðu þína í öðrum sjóðum.
Eftirlaun í A deild
- Þú hefur val um að fara á eftirlaun milli 60 ára og 80 ára aldurs.
- Þú þarft ekki að vera hætt/ur störfum þegar taka eftirlauna hefst.
- Mikilvægt er þó að kanna hver ávinnsla verður þar sem hún getur breyst við töku eftirlauna.
- Fjárhæð eftirlauna reiknast út frá áunnum réttindum og fylgir neysluverðsvísitölu.
- Eftirlaun greiðast ævilangt og eru útborguð mánaðarlega.
- Hefji sjóðfélagi lífeyristöku síðar hækkar lífeyrinn fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem töku lífeyris er frestað.
- Hefji sjóðfélagi lífeyristöku fyrr lækkar lífeyrinn fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem töku lífeyris er flýtt.
Eftirlaun í V deild
- Þú hefur val um að fara á eftirlaun milli 60 ára og 80 ára aldurs.
- Þú þarft ekki að vera hætt/ur störfum þegar taka eftirlauna hefst.
- Fjárhæð eftirlauna reiknast út frá áunnum réttindum og fylgir neysluverðsvísitölu.
- Eftirlaun greiðast ævilangt og eru útborguð mánaðarlega.
- Réttindi eru háð iðgjaldi, aldri og ávöxtun.
- Hefji sjóðfélagi lífeyristöku síðar hækkar lífeyrinn fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem töku lífeyris er frestað.
- Hefji sjóðfélagi lífeyristöku fyrr lækkar lífeyrinn fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem töku lífeyris er flýtt.
Eftirlaun í B deild
B deildin er samsafn réttindasafna sveitarfélagasjóða sem var lokað 1998 og eru réttindi við starfslok töluvert frábrugðin A og V deildinni. Þeir sem eru orðnir 65 ára og hafa látið af störfum hjá sínu sveitarfélagi geta hafið töku lífeyris. Þeir sem hafa náð 95 ára reglunni sem er samanlagður sjóðfélagaaldur og lífaldur geta þó hafið töku lífeyris fyrr. Við mælum með að þeir sem eru að nálgast 95 ára regluna hafi samband við lífeyrisfulltrúa Brúar til að kynna sér réttindi sín.
- Eftirlaunaaldur eftir 65 ára
- Hægt að komast fyrr á lífeyri eftir að 95 ára reglu er náð
- 95 ára regla = sjóðfélagaaldur + lífaldur
-
Þeir sem ná 95 ára reglu ættu hafa samband við lífeyrisfulltrúa
- Viðmið lífeyris getur verið annað hvort skv. meðaltalsreglu eða eftirmannsreglu.
Eftirlaun í R deild
Þeir sem eru orðnir 65 ára og hafa látið af störfum geta hafið töku lífeyris. Mögulegt er að hefja lífeyristöku fyrr ef sjóðfélagi hefur náð 95 ára reglunni sem er samanlagður sjóðfélagaaldur og lífaldur. Sjóðfélögum sem nálgast 95 ára regluna er bent á að leita sér ráðgjafar hjá lífeyrisfulltrúa.
Viðmiðunarlaun lífeyris eru almennt þau dagvinnulaun sem sjóðfélagi hafði við starfslok. Þrjár undantekningar geta verið á því.
- Ef sjóðfélagi var í hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu á fyrr á sjóðfélagatíma sínum, skal miða við hæst launaða starfið, hafi hann verið í því að lágmarki í tíu ár. Annars er miðað við það starf, sem hann að viðbættum enn hærra launuðum störfum, gengdi í að minnsta kosti tíu ár.
- Ef sjóðfélagi hefur öðlast rétt til að hefja töku lífeyris en ákveðið að fresta því og tekið eftir það við lægra launuðu starfi en það sem hann var í áður, skal miða lífeyrinn við starfið sem var hærra launað.
- Ef sjóðfélagi var í hærra launuðu starfi en þurfti af heilsufarsástæðum að láta af stöðu sinni og tók við öðru lægra launuðu starfi skal miða lífeyrinn við hærra launaða starfið.
Réttindi í B deild innan R deildar
Hafi sjóðfélagi ekki uppfyllt skilyrði um ráðningu, starfshlutfall og starfstíma hjá launagreiðanda á hann svokölluð réttindi í B deild innan R deildar Brúar. Aðrar reglur gilda um þau réttindi. Réttur til töku lífeyris miðast þá við 67 ára aldur. Ákveði sjóðfélagi að hefja lífeyristöku síðar hækkar lífeyrinn fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem töku lífeyris er frestað. Hefji sjóðfélagi lífeyristöku fyrr lækkar lífeyrinn fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem töku lífeyris er flýtt.
Réttindi í B deild miðast við ákveðna grundvallarfjárhæð, kr. 122.203 uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í júní 2016.
Í stuttu máli:
- Eftirlaunaaldur er 65 ára.
- Hægt að komast fyrr á lífeyri eftir að 95 ára reglu er náð
- 95 ára regla = lífaldur + starfsaldur
- Ávinnsla 2% á ári af 100% launum.
- Viðmiðunarlaun lífeyris dagvinnulaun við starfslok, ath þó undantekningar.
- Réttindi í B deild - önnur réttindi.
Skattur
Sjóðfélagi þarf að merkja á umsókninni viðeigandi skattþrep og hvort nýta eigi skattkort hjá lífeyrissjóðnum. Það er á ábyrgð sjóðfélaga að láta sjóðinn vita hvort hann óski eftir því að nýta rafrænan persónuafslátt og í hvaða skattþrepi skattgreiðslur eiga að vera. Staðgreiðsla skatta 2025, samkvæmt upplýsingum frá Skatturinn.is, er reiknuð í þremur þrepum:
- Skattþrep 1: 31,49% af tekjum 0 – 472.005 kr.
- Skattþrep 2: 37,99% af tekjum 472.006 - 1.325.127 kr.
- Skattþrep 3: 46,29% af tekjum yfir 1.325.127 kr.
Persónuafsláttur er 68.691 kr. á mánuði.