Fara í efni

Skipting ellilífeyrisréttinda

Par situr á bekk

Samningur milli hjóna eða sambúðarfólks

Sjóðfélagi og maki geta gert samkomulag um að skipta ellilífeyrisréttindum. Þegar sótt er um skiptingu er ákveðinn hluti réttinda beggja einstaklinga framseldur til hins. Skiptingin þarf að vera gagnkvæm og jöfn þ.e. maki þinn verður að veita þér sama hlutfall réttinda sinna, þess vegna þurfa báðir aðilar að skipta réttindum sínum. Úrræðinu er ætlað að jafna heildarstöðu lífeyrisréttinda milli hjóna eða sambúðarfólks. Aðstæður við gerð samnings eru þó mismunandi og því þurfa umsækjendur að skoða sérstaklega hvaða áhrif skiptingin hefur í þeirra tilviki.

  • Skiptingin nær til þeirra réttinda sem hafa áunnist eða munu ávinnast á meðan hjúskapur eða sambúð varir.
  • Skiptingin tekur ekki til örorku-, maka- eða barnalífeyris.
  • Framselja má allt að helmingi lífeyrisréttindanna til maka.
  • Hægt er að gera samning um skiptingu ellilífeyrisréttinda fyrir lífeyristöku eða skiptingu ellilífeyrisgreiðslna eftir lífeyristöku.

 

Skipting ellilífeyrisréttinda

Skipting réttinda milli hjóna eða sambúðarfólks getur verið með tvenns konar hætti. Annars vegar skipting áunninna réttinda og hins vegar framtíðarréttinda, en einnig er hægt að velja bæði. Ekki er hægt að skipta ellilífeyrisréttindum hafi sjóðfélagi hafið lífeyristöku.

1. Skipting áunninna réttinda

Allt að helmingur áunninna réttinda skiptist jafnt á milli hjóna eða sambúðarfólks, þó að annar einstaklingurinn hafi unnið sér inn meiri réttindi en hinn.

  • Eftir skiptinguna verða ellilífeyrisréttindi beggja aðila sjálfstæð.
  • Heimilt er að skipta áunnum réttindum áður en taka ellilífeyris hefst, þó eigi síðar en 65 ára aldur og ef sjúkdómar og heilsufar draga ekki úr lífslíkum.
  • Skipting áunninna réttinda sem verður framkvæmd helst óbreytt komi til skilnaðar eða sambúðarslita.

2. Skipting framtíðarréttinda

Allt að helmingur réttinda sem mun ávinnast, eftir að samkomulagið er gert og þar til hjúskap eða sambúð er slitið, skiptist jafnt á milli hjóna eða sambúðarfólks.

  • Skipting framtíðarréttinda (sem þú munt ávinna þér á komandi árum).
  • Við hjúskapar- eða sambúðarslit er mikilvægt að sjóðfélagar tilkynni þeim lífeyrissjóðum sem eru með samning um breytta stöðu.
  • Réttindin sem skiptast á meðan tímabil samnings stendur yfir haldast sjálfstæð og óbreytt, komi til sambúðar- eða hjúskaparslita.

 

Skipting ellilífeyrisgreiðslna

Greiðslur ellilífeyris sjóðfélaga renna þá að hálfu (eða þeim hluta sem tekið er fram í samningi) til maka. Greiðslurnar falla niður við andlát sjóðfélagans en ef maki eða fyrrverandi maki andast á undan sjóðfélaganum renna greiðslurnar eftir það óskipt til sjóðfélagans.

  • Hægt er að sækja um skiptingu lífeyrisgreiðslna á öllum aldri, einnig eftir að taka ellilífeyris er hafin.
  • Ekki er nauðsynlegt að skila inn sambúðar- eða hjúskaparsöguvottorði né læknisvottorði með umsókn.

 

Hvernig skal sækja um skiptingu?

  • Einum samningi er skilað til lífeyrissjóðsins.
  • Báðir aðilar þurfa að undirrita samning.
  • Sambúðar og/eða hjúskaparsöguvottorð skal leggja fram sem staðfestir það tímabil sem skipta ber samkvæmt samningi.
  • Heilbrigðisvottorð undirritað af lækni fyrir báða aðila. Heilbrigðisvottorðin eru send trúnaðarlækni sjóðsins til yfirferðar.
  • Sé heimild til skiptingar, þ.e. fullnægjandi gögn lögð fram og trúnaðarlæknir telur ekki sjúkdóma eða heilsufar draga úr lífslíkum umsækjenda, er samningurinn sendur til þeirra lífeyrissjóða sem umsækjendur hafa greitt til á tilgreindu tímabili.

 

 

 

Hvað þarf að hafa í huga?

Rétt er að taka fram að óvarlegt kann að vera að gera samning um skiptingu ellilífeyrisréttinda eigi einstaklingur réttindi í svokölluðum hlutfallssjóðum (B deildar sjóðum) þar sem makalífeyrisréttindi í þeim sjóðum eru greidd ævilangt.

Ef þú gerir réttindaskiptasamning við maka þinn mun sá hluti réttindanna sem maki þinn eignaðist við samninginn falla niður ef maki þinn fellur frá. Þú hefur með samningnum afsalað þér þeim rétti sem þú fluttir yfir á maka þinn. Þú getur þó átt rétt á makalífeyri og/eða barnalífeyri á grundvelli þeirra réttinda.

Samkomulag um skiptingu tryggir stöðu þess sem er með lakari ellilífeyrisrétt ef viðkomandi missir maka sinn. Ef einstaklingurinn sem er með meiri réttindi fellur fyrr frá fær hinn einstaklingurinn sem er með minni réttindi betri ellilífeyrisréttindi því hann fær helming af réttindum makans. Auk þess fær hann full makalífeyrisréttindi. Ef einstaklingurinn sem er með lakari ellilífeyrisréttindi fellur frá á undan þeim sem er með betri ellilífeyrisréttindi á sá sem eftir lifir ekki rétt á þeim áunnum ellilífeyrisréttindum sem hann hafði afsalað sér til makans. Þar að auki er líklegt að eftirlifandi maki fái lágan makalífeyri eftir maka sinn.



Brú aðstoðar við gerð samnings

Við hjá Brú lífeyrissjóði aðstoðum við gerð samnings um skiptingu ellilífeyrisréttinda og veitum ráðgjöf. Hægt er að bóka símtal hér eða bóka staðfund hér á skrifstofu okkar að Sigtúni 42, 105 Reykjavík. Einnig er hægt að senda tölvupóst á lifeyrir@lifbru.is.

Frekari upplýsingar er að finna inn á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, en þar sem algengum spurningum um skiptingu lífeyrisréttinda er svarað.

 

 

Umsóknir á PDF formi

Samningur um skiptingu ellilífeyrisréttinda - til útfyllingar

Samningur um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna - til útfyllingar

Heilbrigðisvottorð vegna umsóknar um skiptingu ellilífeyrisréttinda- til útfyllingar af lækni