Fara í efni

Séreignarsparnaður

Séreignarsjóður er einstaklingsbundinn sparnaður og verður til þegar iðgjöld eru lögð inn á reikning og ávöxtuð. Þá myndast sjóður sem losnar þegar þú nálgast eftirlaunaaldur en hann er algjörlega þín eign og erfist að fullu. Í lífeyrismálum er bæði hægt að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í séreign og greiða valfrjálsan viðbótarlífeyrissparnað.

Sjóðfélögum okkar er velkomið að gera samning um séreignarsparnað. Samstarfsaðili okkar í séreignarmálum er Almenni lífeyrissjóðurinn en þar er hægt að velja um sjö mismunandi ávöxtunarleiðir séreignarsparnaðar.

Brú og Almenni vinna saman | Almenni lífeyrissjóðurinn

 

 

 

Hluti skylduiðgjalds í séreign

Sjóðfélagar í V deild geta ráðstafað hluta skylduiðgjalds í séreignarsparnað.

  • Ráðstöfun 3,5% af skylduiðgjaldi í séreign, eða það sem er umfram 12%.
  • Til þess að nýta skiptingu iðgjalds er skilað inn umsókn en þá þarf að vera með samning við vörsluaðila séreignar.
  • Inneign er laus til útborgunar við 60 ára aldur og geta sjóðfélagar ráðið hvort þeir taka inneignina út í einu lagi eða dreifa úttektinni yfir lengri tíma.

Sækja um aðild að V deild og/eða skiptingu iðgjalds

Samningur um 3,5% í séreign hjá Almenna lífeyrissjóðnum

 

 

 

Viðbótarlífeyrissparnaður

Frjáls viðbótarsparnaður launþega með þátttöku launagreiðenda.

  • Framlag einstaklings nemur oftast 2-4% af launum.
  • Mótframlag launagreiðanda er yfirleitt 2% til viðbótar og líta má á sem launahækkun.
  • Sparnaðurinn er alfarið eign viðkomandi einstaklings og erfist að fullu.
  • Sparnaðurinn er laus við 60 ára aldur.
  • Sparnaðinn er hægt að nýta skattfrjálst fyrir útborgun á fyrstu íbúð eða til að greiða aukalega inn á fasteignalán. Sjá nánar á skatturinn.is.

Umsókn um viðbótarlífeyrissparnað | Almenni lífeyrissjóðurinn

 

 

Sjö ávöxtunarleiðir

hjá Almenna lífeyrissjóðnum

Samstarfsaðili okkar í séreignarmálum er Almenni lífeyrissjóðurinn en hann hefur áratuga reynslu af rekstri séreignasjóða og hefur skilað góðri langtímaávöxtun ásamt því að leggja áherslu á góða upplýsingagjöf til sjóðfélaga.

Hægt að velja um sjö mismunandi ávöxtunarleiðir séreignarsparnaðar.

Ævileiðin byggir á því að inneign sjóðfélaga er ávöxtuð í verðbréfasöfnum sem taka mið af aldri sjóðfélaga, ævisöfnum I-III. Sjá nánar fyrir neðan.

Ávöxtunarleiðir | Almenni lífeyrissjóðurinn

 

 

 

 

Ævileiðin hjá Almenna


Ævileiðin byggir á því að inneign sjóðfélaga er ávöxtuð í verðbréfasöfnum sem taka mið af aldri sjóðfélaga. Þar er ævinni skipt í þrjá hluta:

  • Fram til 44 ára aldurs er inneign ávöxtuð í Ævisafni I
  • Á aldrinum 45 til 48 ára aldurs flyst inneign í jöfnum áföngum í Ævisafn II
  • Á aldrinum 57 til 60 ára flyst inneign í jöfnum áföngum í Ævisafn III

Í Ævileiðinni er inneign flutt á milli safna eftir aldri sjóðfélaga, án kostnaðar.

Almenni mælir með að sjóðfélagar velji sér safn eftir áhættuþoli sem ræðst meðal annars af ávöxtunartíma. Ævileiðin hentar því fyrir flesta.

Í Ævileiðinni er innbyggð áhættudreifing sem felst í því að hlutfall hlutabréfa lækkar með aldri um leið og vægi skuldabréfa fer vaxandi.

 

Ævileiðin | Almenni lífeyrissjóðurinn

 

 

 

Almenni og Brú vinna saman

Af hverju valdi Brú að vera í samstarfi með Almenna?

Almenni lífeyrissjóðurinn hefur áratuga reynslu af rekstri séreignarsjóða, hefur skilað góðri langtímaávöxtun og leggur áherslu á góða upplýsingagjöf til sjóðfélaga.

Með samstarfinu vill Brú upplýsa sjóðfélaga sína um góðan kost.

Hvers vegna vill Brú geta boðið upp á séreignarsparnað?

Á síðustu árum hefur áhugi á séreignarsparnaði aukist, meðal annars vegna hækkunar á skylduiðgjaldi í lífeyrissjóð og auknum sveigjanleika til að greiða í séreign.

Af hverju stofnar Brú ekki sína eigin séreignardeild?

Brú skoðaði þann möguleika að stofna að nýju séreignardeild og deild fyrir skyldusparnað í séreign en niðurstaða greiningarvinnu var að slíkt væri kostnaðarsamt og óhagkvæmt fyrir sjóðfélaga.

Er ráðstöfun skylduiðgjalds það sama og tilgreind séreign?

Frá stofnun Brúar lífeyrissjóðs hafa sjóðfélagar í V deild haft þann valkost að geta ráðstafað allt að 3,5% af mótframlagi launagreiðenda í séreignarsparnað. Í dag merkist sá séreignarsparnaður sem séreign af lágmarksiðgjaldi. Sá séreignarsparnaður er því ekki skilgreindur sem tilgreind séreign.

Tilgreind séreign er tegund séreignarsparnaðar sem varð til í kjölfar kjarasamninga á milli ASÍ og SA. Tilgreind séreign fellur einnig undir ráðstöfun skylduiðgjalds en um hana gilda sérstakar reglur. Til dæmis gilda þrengri útgreiðslureglur en gilda um hefðbundinn séreignarsparnað.

Við mælum með að þú hafir samband við þinn séreignarsjóð til að fá nánari upplýsingar.