Þann 1. apríl næst komandi taka gildi ný lög um fasteignalán til neytenda. Eftirleiðis þarf greiðslumat að liggja til grundvallar öllum lánum sjóðsins til sjóðfélaga, óháð fjárhæð þeirra. Undanþága vegna lána undir 2.000.000 kr. eða 4.000.000 kr. þegar um hjón eða sambúðarfólk er að ræða, fellur niður.
Einnig er rétt að benda á að hjón og sambúðarfólk skulu eingöngu greiðslumetin saman sé um sameiginlega lántöku að ræða. Um sameiginlega lántöku er að ræða þegar íbúðarhúsnæði sem setja á til veðtryggingar láni er jafnframt að hluta í eigu maka sjóðfélaga eða sambúðarmaka hans. Sé íbúðarhúsnæði eingöngu í eigu sjóðfélaga skal greiðslumatið því eingöngu miða við tekjur og eignir sjóðfélaga en ekki maka eða sambúðarmaka hans.
Enn sem komið er framkvæmir lífeyrissjóðurinn ekki greiðslumöt og því er sjóðfélögum sem hyggjast sækja um lán hjá sjóðnum bent á að sækja greiðslumat hjá sínum viðskiptabanka. Viðskiptabankar taka gjald fyrir framkvæmd greiðsumats og fer það eftir gjaldskrá þeirra.