Fjárfestingarstefna Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 var samþykkt á stjórnarfundi þann 29. nóvember síðast liðinn. Markmið sjóðsins, er að ávaxta eignir á hagkvæman hátt og tryggja góða ávöxtun miðað við áhættu. Þá skal eignasamsetning vera í samræmi við heimildir VII. kafla laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Fjárfestingarstefna sjóðsins er sem fyrr varkár svo ekki reyni frekar á bakábyrgð Reykjavíkurborgar.
Framsetning á stefnunni er með öðrum hætti en áður þar sem tekið er tillit til breytinga í lögum og reglum Fjármálaeftirlitsins um eignaflokkun verðbréfa. Nýr kafli er í stefnunni sem fjallar um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum en unnið er að breytingu í reglum eignastýringar þannig að við mat á fjárfestingarkostum sé litið til þess hvort útgefendur verðbréfa hafi mótað sér stefnu varðandi umhverfismál, samfélagslega ábyrgð og góða stjórnarhætti og hvort rekstraraðilar sjóða hafi sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Horft er þá aðallega til viðmiðunarreglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Rekstraraðili sjóðsins, Brú lífeyrissjóður, er einn af 23 stofnfélögum að félagasamtökunum IcelandSIF, en tilgangur félagsins er að auka umræður og efla þekkingu fjárfesta í aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga.
Ein helsta breytingin frá stefnu fyrra árs er að hlutfall ríkisbréfa heldur áfram að dragast saman og á móti eykst hlutfall sértryggðra skuldabréfa og skuldabréfa sveitarfélaga. Stefnt er að því að auka vægi erlendra eigna smám saman.
Hér má sjá fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar í heild sinni.